Uppreisnarsveitir í Mjanmar segjast hafa hörfað frá Myawaddy, verslunarbæ við landamæri Taílands, eftir átök við sveitir herforingjastjórnarinnar. Átök hafa staðið yfir í bænum undanfarnar vikur og þúsundir íbúa hafa flúið yfir landamærin til Taílands.
Uppreisnarmenn lýstu því yfir fyrir um viku að þeir hefðu náð stjórn á Myawaddy þó að liðsmenn herforingjastjórnarinnar héldu enn til á nokkrum stöðum. Í tilkynningu Karen frelsissveitarinnar (KNLA) í morgun segir að liðsmenn hennar hörfi nú tímabundið. Þetta þykir mikill sigur fyrir herstjórnarliða því stjórnin reiðir sig mjög á tekjur af verslun um bæinn.
ASSOCIATED PRESS / Warangkana Wanichachewa
Þúsundir íbúa Myawaddy flúðu yfir landamærin til Taílands um helgina.