2. mars 2024 kl. 0:14
Erlendar fréttir
Þýskaland

Segja stuðn­ing Þjóð­verja við Ísrael stuðla að þjóð­ar­morði

Níkaragva lagði í gær fram beiðni til Alþjóðadómstólsins í Haag um að stofna til máls gegn Þjóðverjum vegna stuðnings þeirra við Ísrael.

Í fréttatilkynningu á vef dómstólsins kemur fram að Níkaragva telji að með pólitískum, efnahagslegum og hernaðarlegum stuðningi Þjóðverja við Ísraela og stöðvun á greiðslum til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNRWA stuðli þeir að þjóðarmorði á Palestínumönnum. Það feli bæði í sér brot gegn alþjóðalögum og ákvæðum Genfarsáttmála um þjóðarmorð.

Fleiri en þrjátíu þúsund hafa farist í árásum ísraelska hersins á Gaza frá 7. október samkvæmt opinberum gögnum heilbrigðisyfirvalda þar. Auk þeirra eru yfir sjötíu þúsund sögð hafa særst í árásunum.