29. janúar 2024 kl. 3:45
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína

Norsk­ur þing­mað­ur til­nefn­ir palest­ínsk­an ljós­mynda­blaða­mann til frið­ar­verð­launa Nóbels

Þingmaður á norska stórþinginu hefur tilnefnt palestínska ljósmyndablaðamanninn Motaz Azaiza til friðarverðlauna Nóbels.

Vegfarendur stika framhjá veggmynd sem sýnir palestínska ljósmyndarann og blaðamanninn Motaz Azaiza, á Leake Street járnbrautarbogana í London 26. janúar 2024. Motaz varð samskiptamiðlastjarna þegar hann tók að birta ljósmyndir og frásagnir af stríðinu á Gaza. Fylgjendum hans á Instagram fjölgaði úr 27 þúsund í 18 milljónir fyrstu 100 daga átakanna. (AP Photo/Kirsty Wigglesworth)
AP / ASSOCIATED PRESS
Veggmynd í Lundúnum sem sýnir Motaz Azazia að störfum.

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið. Ingvild Wetrhus Thorsvik, þingmaður Venstre, segir að með ljósmyndum og myndskeiðum sem Azaiza birtir á Instagram öðlist milljónir manna um allan heim innsýn í þær skelfingar sem blasi við stríðshrjáðum íbúum Gaza.

Thorsvik segir veröldina alla þurfa að sjá myndir Azaizas til að skilja samtímann og minnast þess sem gerist á Gaza um alla framtíð.

Motaz varð samskiptamiðlastjarna þegar hann tók að birta ljósmyndir og frásagnir af stríðinu á Gaza. Fylgjendum hans á Instagram fjölgaði úr 27 þúsund í 18 milljónir fyrstu 100 daga átakanna.