5. janúar 2024 kl. 4:09
Erlendar fréttir
Innrás í Úkraínu

Segir Rússa nota norður-kór­esk­ar eld­flaug­ar í Úkra­ínu

Rússar hafa notað norður-kóresk vopn í hernaðaraðgerðum sínum í Úkraínu, að sögn John Kirby, talsmanns bandaríska þjóðaröryggisráðsins. Norður-kóreskar eldflaugar og skotpallar hafi verið notuð í tveimur árásum rússneska hersins síðastliðna viku.

Kirby sagði það merkja stigmögnun sem valdi þungum áhyggjum. Bandaríkjamenn hygðust fara með málið fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna því hér væri um að ræða brot gegn ályktunum þess. Hann sagði að nú væri enn meiri þörf á því að bandaríska þingið samþykki tafarlaust hernaðaraðstoð við Úkraínu.

John Kirby, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins, ávarpar blaðamenn á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington. Hann stendur í pontu merkta Hvíta húsinu.
ASSOCIATED PRESS / Evan Vucci

Kirby sagði einnig að Rússar leitist við að fá skammdrægar eldflaugar frá Írönum þar sem gengið hafi verulega á vopnabirgðir þeirra frá upphafi innrásarinnar.

Rússar hafna því að hafa notað norður-kóresk vopn í hernaði sínum. Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipaði í dag aukna framleiðslu á skotpöllum í ríkinu.