Hæstiréttur Michiganríkis í Bandaríkjunum hefur hafnað því að taka til meðferðar beiðni um að meina Donald Trump að bjóða sig fram í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosninganar á næsta ári.
Hópur kjósenda hafði beðið réttinn um að taka afstöðu til þess hvort Trump væri vanhæfur til framboðs með vísun í stjórnarskrá landsins sem bannar fólki sem tekur þátt í uppreisn að gegna opinberu embætti ef það hefur áður svarið Bandaríkjunum hollustueið.
Með þessari ákvörðun er ekkert sem kemur í veg fyrir að Trump bjóði sig fram í ríkinu, en Michigan fer þarna aðra leið en Colorado, þar sem hæstiréttur dæmdi Trump í síðustu viku vanhæfan með sömu rökum.