16. nóvember 2023 kl. 21:36
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Santos sagður hafa svikið stuðningsmenn sína „blygðunarlaust“

George Santos, þingmaður Repúblikana frá New York-ríki, lýsti því yfir í dag að hann sækist ekki eftir endurkjöri á næsta ári. Það gerði hann stuttu eftir að siðanefnd Bandaríkjaþings sendi frá sér skýrslu þar sem segir að þingmaðurinn hafi blygðunarlaust svikið pening af stuðningsmönnum sínum. Hann hefur verið ákærður fyrir slíkt.

Sjálfur segir Santos að skýrslan sé pólitískur rógur. Tveir Demókratar og einn Repúblikani á Bandaríkjaþingi ætla að leita leiða til að gera hann brottrækan af þinginu. Hann hefur komist í fréttir fyrir að hafa logið á starfsferilskrá sinni. Hann hampaði mjög starfsreynslu og menntun í kosningabaráttunni. Margt af því sem hann sagði um þau mál reyndist ósatt.

Þingmaður Repúblikana, George Santos, stendur í mannmergð á götum New York borgar. Umhverfis hann eru þónokkrir ljósmyndarar. Santos virðist vera að segja eitthvað, munnur hans er opinn og hægri hönd er teygð örlítið fram. Hann ber sólgleraugu og er klæddur gráum jakkafötum.
EPA-EFE / WILL OLIVER