Tugir heimsfrægra leikara og skemmtikrafta hafa sent Joe Biden Bandaríkjaforseta opið bréf og hvetja hann til að koma á vopnahléi í stríðinu milli Hamas og Ísraels.
EPA-EFE / ATEF SAFADI
„Við hvetjum ríkisstjórn þína, og alla leiðtoga heimsins, til að virða líf allra í Landinu helga og krefjast eða koma á vopnahléi umsvifalaust,“ segir í bréfinu sem er undirritað af Cate Blanchett, Joaquin Phoenix, Dua LIpa, Susan Sarandon og fjölda annarra. Listinn á enn eftir að lengjast.
Hópurinn áréttar að öll mannslíf séu heilög og harmar örlög þeirra fimm þúsund sem látið hafa lífið frá því Hamas réðst inn í Ísrael 7. október. Þess er krafist að Ísraelsmenn láti af sprengjuárásum sínum á Gaza og að Hamas láti alla gísla sína lausa.