Breski verkamannaflokkurinn hafði betur gegn Skoska þjóðarflokknum í aukakosningum í kjördæminu Rutherglen and Hamilton West í Skotlandi.
PA / ASSOCIATED PRESS
BBC greinir frá. Michael Shanks, frambjóðandi Verkamannaflokksins fékk tvöfalt fleiri atkvæði en keppinauturinn Katy Loudon. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir árangurinn stórkostlegan en Humza Yosaf, leiðtogi Þjóðarflokksins og fyrsti ráðherra Skotlands, kveðst afar vonsvikinn.
Efna þurfti til aukakosninga eftir að Margaret Ferrier, þingmanni Þjóðarflokksins, var vikið frá vegna brota á sóttvarnarreglum, en hún ferðaðist í lest milli Glasgow og Lundúna, meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði. Kosningaþátttaka var rúm 37 af hundraði, mun minni en í kosningunum árið 2019.