Raymond Ndong Sima, sem herforingjar sem rændu völdum í Gabon útnefndu forsætisráðherra, segir unnt að boða til frjálsra kosninga í landinu innan tveggja ára.
EPA / STRINGER
Herinn rændi völdum 30. ágúst í kjölfar forsetakosninga fjórum dögum fyrr. Þá var Ali Bongo Ondimba endurkjörinn þriðja sinni en hann tók við völdum af föður sínum, Omari Bongo, sem varð forseti 1967. Grunur lék á að úrslitum kosninganna hefði verið hagrætt.
Sima leiðir ríkisstjórn sem ætlað er að leiða Gabon gegnum umbreytingatímabil, sem hann segist vona að standi ekki lengur en tvö ár. Hann segir það raunhæft markmið en geti þó varað skemur eða lengur eftir atvikum. Sima var forsætisráðherra Gabon 2012 til 2014.