Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Aðstæður í Bandaríkjunum hafa áhrif á aðild Úkraínu að NATO

Nýleg ákvörðun leiðtoga Atlantshafsbandalagsins um að setja ekki dagsetningu á aðild Úkraínu að bandalaginu markaðist að verulegu leiti af pólitískum aðstæðum í Bandaríkjunum, að mati sérfræðings í öryggis- og varnarmálum.

Aðildarríkin þurfi að auka stuðning sinn við Úkraínu, vilji þau að átökunum ljúki sem fyrst. Afstaða þeirra hefur verið sú að Úkraína fái aðild að bandalaginu, en ekki á meðan enn er stríð í landinu.

Bruno Lété, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum hjá German Marshall Fund hugveitunni, segir fyrirhugaðar forsetakosningar í Bandaríkjunum hafi áhrif á afstöðu Joe Biden Bandaríkjaforseta til aðildar Úkraínu.

Hann segir stuðning vestrænna ríkja vera enn nauðsynlegri nú, þar sem gagnsókn Úkraínumanna virðist ekki ganga eins vel og eins fljótt og vonast hafði verið til.