21. maí 2023 kl. 23:10
Erlendar fréttir
WHO stefnir að alheimssamkomulagi um heilbrigðisöryggi
Markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er að heimurinn verði reiðubúinn að bregðast við þegar næsti heimsfaraldur skellur á.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar lét þessi orð falla við upphaf heimsþings hennar sem hófst í dag og stendur til maíloka. Tedros segir stefnt að því að komist verði að alþjóðlegu, og um leið sögulegu, samkomulagi um heilbrigðisöryggi heimsins.
Það verkefni sé afar brýnt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. „Við getum ekki haldið uppteknum hætti,“ sagði forstjórinn. Hann kveðst vonast til að samkomulag verði tilbúið fyrir næsta heimsþing að ári, en það er enn í mótun.