24. apríl 2023 kl. 0:56
Erlendar fréttir
Atlantic Airways flutti metfjölda farþega og hagnaðist vel
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways skilaði hagnaði að nýju á síðasta ári og hefur aldrei flogið með fleiri farþega.
Faraldurinn reyndist félaginu erfiður ljár í þúfu líkt og flestum flugfélögum heimsins en reksturinn fór úr jafnvirði tvö hundruð milljóna íslenskra króna halla árið 2021 í ríflega fjögur hundruð milljóna króna hagnað í fyrra.
Það er eftir skatta að því er segir í frétt Kringvarpsins. Stjórnendur félagsins þakka árangurinn umtalsverðri fjölgun farþega og fjörugri kaupleigustarfsemi.
Tæpur helmingur farþega félagsins á seinasta ári var útlendingar. Alls ferðuðust 351 þúsund farþegar með félaginu árið 2022 sem er fjölgun um tæp tvö hundruð þúsund frá árinu áður.