Rheinmetall segist geta útvegað 139 Leopard-skriðdreka
Framleiðendur hinn öflugu þýsku Leopard-árásarskriðdreka segjast geta afhent 139 slíka, þar af 51 af gerðinni Leopard 2A4 en 88 Leopard 1-skriðdreka, að fengnu leyfi stjórnvalda. Þetta geti þó ekki gerst einn tveir og þrír. Talsmaður þýska hergagnaframleiðandans Rheinmetall greindi frá þessu í samtali við RND-fréttaveituna í gær.
Hann segir 29 Leopard 2A4 það langt komna í framleiðslu að hægt væri að afhenda þá í apríl eða maí á þessu ári, en 22 slíkir drekar þarfnast umfangsmeiri uppfærslu og viðhalds og verða varla tilbúnir fyrr en um eða upp úr áramótum. Þá geti fyrirtækið útvegað 88 Leopard 1, að sögn talsmannsins, sem nefndi engan tímaramma fyrir þá dreka. Allt sé þetta þó háð vilja stjórnvalda.
Þetta eru einungis þeir drekar sem Rheinmetall hefur sjálft yfir að ráða. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, fullyrti í gær að þýski herinn ætti rúmlega 350 ökufæra Leopard 2-skriðdreka og að um það bil 200 þeirra stæðu ónotaðir í vélaskemmum hersins. Mjög er þrýst á Þjóðverja að senda Úkraínumönnum Leopard-árásarkriðdreka, en þeir hafa ekki látið undan þeim þrýstingi enn sem komið er. Varnarmálaráðherrann Boris Pistorius segir að ákvörðunar sé að vænta innan skamms.