Sjö árum bætt við fangavist Aung San Suu Kyi
Dómstóll á vegum herforingjastjórnarinnar í Mjanmar hefur dæmt Aung San Suu Kyi, fyrrverandi leiðtogi landsins, til sjö ára fangavistar fyrir spillingu.
AFP fréttaveitan hefur þetta eftir ónefndum heimildarmanni en meðal sakarefnanna var leiga og viðhald þyrlu sem sagðir eru hafa kostað ríkið umtalsverða fjármuni. Réttarhöld yfir Suu Kyi hafa staðið um átján mánaða skeið.
Dómstóll herforingjastjórnarinnar hefur þegar dæmt leiðtogann fyrrverandi til 26 ára fangelsisvistar. Ekki er búist við að herforingjastjórnin hyggist rétta frekar yfir Suu Kyi.
Suu Kyi, sem er friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur verið í haldi frá 1. febrúar í fyrra, en þá tók herinn öll völd í landinu á ný eftir afar skammlífa tilraun með lýðræði og borgaralega stjórn í landinu.