Neyðarkall vegna manneklu og plássleysis á Landspítala
Þung staða á Landspítalanum er oft kveðin vísa. Þó svo að almennum samfélagstakmörkunum hafi verið aflétt á fyrri hluta þessa árs þá glímir spítalinn enn við mikið álag. Spítalinn hóf þetta ár á neyðarstigi vegna covid bylgju sem þá gekk yfir, og var svo færður niður á hættustig í byrjun febrúar, en í lok þess mánaðar var hann færður aftur upp á neyðarstig vegna álags, þá vegna covid. Og neyðarstiginu var ekki aflétt fyrr en í lok mars og seinni hluta apríl var hann svo færður niður á óvissustig.
Mikil mannekla, álag og fráflæðisvandi hefur sett strik í reikninginn í starfseminni á árinu. Nýtt skipurit tekur gildi um áramótin þar sem til að mynda á að færa aukna ábyrgð til klínískra stjórnenda í framlínu spítalans. Opna á ný rými á Landspítalanum vegna mikils álags. Már Kristjánsson forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu sagði í fréttum okkar í gær að það yrði erfitt fyrir bráðamóttökuna að takast á við stórslys ef til þess kæmi - sem væri afar vond staða í þeirri færð sem nú er.
Staðan er hvað verst á bráðamóttökunni. Í morgun þegar við ræddum við Má Kristjánsson voru ríflega 70 manns á bráðamóttökunni sem er ekki hugsuð nema fyrir 40 manns í einu. Tilfelli þar sem leggja þarf fólk inn á deildir eru fleiri nú en hefur verið. Ástæður þess eru miklar öndunarfærasýkingar eins og inflúensa, kórónuveirur, þar með talið covid-19, RS vírus og fleira.
Til að draga úr álagi hefur Landspítalinn beint þeim tilmælum til nærliggjandi sjúkrastofnana að beina aðeins allra veikasta fólkinu á Landspítala. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að rýmum hafi verið fjölgað að undanförnu og auknum fjármunum hafi verið varið til heilbrigðiskerfisins.