Kosið er í Færeyjum í dag og búist er við að stjórnarandstöðuflokkar bæti við sig fylgi. Boðað var til kosninga eftir að Miðflokkurinn gekk úr stjórninni þegar formaður flokksins, Jenis av Rana, var rekinn vegna afstöðu hans til réttinda hinsegin fólks. Ekki reyndist unnt að mynda meirihlutastjórn án Miðflokksins og því var boðað til kosninga næstum ári áður en kjörtímabilinu er lokið.
Lokaumræður í fyrrakvöld
Kosningabaráttunni, valstríðinu eins og Færeyingar kalla það, lauk með tveggja og hálfs tíma sjónvarpskappræðum í Skúlatröð í Klakksvík. Síðasti klukkutími útsendingarinnar voru kappræður leiðtoga flokkanna. Meðal umræðuefna var húsnæðisskortur, velferðarmál, verðbólga, skattar, jafnrétti og mögulegar breytingar á þungunarrofslögum. Þau er ströng og er miklu erfiðara að fá leyfi til að binda enda á þungun en bæði í Danmörku og á Íslandi.
Fiskveiðisamningurinn við Rússa
Snarpar umræður voru um fiskveiðisamning við Rússa sem var endurnýjaður í miðri kosningabaráttunni. Sámal Pétur í Grund, formaður Sjálfstýrflokksins, og Jenis av Rana voru þeir einu sem sögðu að ekki hefði átt að semja við Rússa um endurnýjun fiskveiðisamnings. Allir aðrir flokksleiðtogar studdu endurnýjun samningsins og sögðu Færeyinga ekki hafa efni á að segja honum upp. Samkvæmt samningnum mega færeysk skip veiða 20 þúsund tonn af þorski í rússneskri lögsögu í Barentshafi.
„Ekki selja móralinn fyrir kapitalinn“
Sámal Pétur í Grund sagðist vera andvígur endurnýjun vegna þess að það væri siðferðilega óverjandi að gera samning við stríðsglæpamann. Hann þyrði að segja það vegna þess að það væri rétt, siðferðilega rétt. „Við skulum ekki selja móralinn fyrir kapitalinn,“ sagði Sámal Pétur.
Víðtæk samstaða um endurnýjun fiskveiðisamnings
Færeyska stjórnin og lögmaðurinn Bárður á Steig Nielsen leituðu samstöðu með stjórnarandstöðunni áður en samningurinn var framlengdur. Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarmanna og fyrrverandi lögmaður, sem var í stjórnarandstöðu núna sagði að stjórnmálamennirnir bæru ábyrgð á atvinnulífinu, að fólk hefði störf. Hann sagði þó að Jafnaðarmannaflokkurinn vildi ekki að fiskveiðisamningurinn yrði framlengdur ef stríð yrði í Úkraínu á næsta ári.
Heimsglugginn
Björn Þór Sigbjörnsson og Gígja Hólmgeirsdóttir ræddu færeysk stjórnmál við Boga Ágústsson í Heimsglugganum. Þá var einnig rætt um niðurstöðu endurtekinna kosninga til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Georgíu-ríki og dóm yfir Cristinu Kirchner, varaforseta Argentínu.