Elton John hélt í síðasta mánuði sína síðustu tónleika í Vesturheimi. Hann áformar að kveðja evrópska aðdáendur sína næsta sumar, á Glastonbury hátíðinni á Englandi.
Síðustu tónleikar Eltons Johns á ferlinum voru á Dodgers leikvanginum í Los Angeles. Leikvangurinn varð að sjálfsögðu fyrir valinu því þar hófst sigurganga hans í Bandaríkjunum árið 1975.
Löng lokaferð
Elton John tilkynnti fyrir tæpum fimm árum að hann væri að leggja upp í sína síðustu tónleikaferð um heiminn, Farewell Yellow Brick Road, sem við getum kallað Vertu sæll, guli steinlagði stígur. Fyrir dyrum stóðu 350 tónleikar og til stóð að lokatónninn yrði sleginn árið 2021. Ferðin hefur dregist töluvert á langinn, einkum vegna kóvid-farsóttarinnar. Einnig þurfti Elton John að fara í mjaðmaaðgerð eftir að hann datt illa.
Síðasti tónninn á Glastonbury
Lokaferðin í Evrópu er fram undan. Hún hefst í maí og stendur fram undir júnílok. Í morgun sendi Elton John síðan frá sér tilkynningu um að lokatónleikarnir í álfunni og þar með að líkindum hans síðustu á ferlinum yrðu á aðalsviðinu á Glastonbury hátíðinni í Somerset á Englandi. Framlag hans verður hápunktur hátíðarinnar sunnudagskvöldið 25. júní og hann lofar því að ýmsir gestir stígi á svið með honum.
Vill tíma með fjölskyldunni
Þegar Elton John tilkynnti um lokatónleikaferðina var ástæðan ekki sú að hann væri búinn að fá nóg af öllu umstanginu sem fylgt hafði ferli hans allt frá árinu 1962. Hann og eiginmaður hans David Furnish höfðu fest ráð sitt og eignast tvo drengi. Sá eldri verður tólf ára á jóladag og yngri sonurinn verður tíu ára í janúar. Elton John sagði að höfuðástæða þess að hann ætlaði að hætta öllu hljómleikahaldi væri sú að hann vildi eiga fleiri stundir með sonunum. Hann sagði að drengirnir væru honum allt. Þau orð væru ekki til í enskri tungu sem lýstu því hve mjög honum þætti vænt um þá.
Útgefandinn vill fleiri plötur
Segja má að Elton John hafi skilað sínu og vel það á sextíu ára tónlistarferli, frá því að hann var fimmtán ára og enn í miðskóla. Tónleikaferðirnar hafa verið langar og strangar með alls konar skynörvandi efnum og plöturnar eru orðnar ótal margar. Samt hefur útgefandinn þrýst á að þær yrðu enn fleiri eins og kom fram þegar hann var gestur í sjónvarpsþætti fyrrnefnds Grahams Nortons.
Þeir vilja að ég geri jólaplötu og tökulagaplötur með gömlum Motown lögum og þess háttar,“ sagði Elton John. „Ég hef engan áhuga á slíku. Best að láta Rod Stewart um þann pakka. Enda selur hann miklu fleiri plötur en ég, blessað helvítið!“
Skrautlegur ferill
Fáir ef nokkrir listamenn hafa lagt jafn hart að sér að skemmta áhorfendum og Elton John. Gleraugu hans þóttu með ólíkindum og búningarnir einhverjir þeir svakalegustu sem sést höfðu. Einhverju sinni klæddist hann meira að segja Andrésar andar-búningi. Hann viðurkenndi eftir á að búningurinn hefði reyndar háð honum mjög við hljóðfæraleikinn. En tónlistin stendur vitaskuld upp úr. Sum lögin skutust upp vinsældalistana með ógnarhraða. Önnur þurftu sinn tíma, eins og til dæmis Tiny Dancer sem sló ekki í gegn fyrr en mörgum áratugum eftir að það kom út.