Mikið hefur verið rætt um að Demókrataflokkurinn hafi staðið sig betur í nýafstöðunum kosningum en búist var við og lítið orðið úr þeirri „rauðu bylgju“ sem spáð hafði verið að yrði í bandarískum stjórnmálum. En meginniðustaðan var samt að Repúblikanar unnu meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings þó að sigurinn verði sennilega mun minni en Demókratar óttuðust. Það á efalítið eftir að gera Joe Biden forseta erfitt að koma málum í gegnum þingið.
Áhrif og völd forsetans minnka
Fari svo að Repúblikanar fái einnig meirihluta í öldungadeildinni gæti forsetinn lent í erfiðleikum með skipan dómara og embættismanna. Ljóst er því að Joe Biden mun ekki hafa sömu völd og áhrif á seinni hluta kjörtímabils síns og fyrstu tvö árin.
Ron DeSantis sigraði, Donald Trump tapaði
Líta má svo á að Ron DeSantis, ríkisstjóri í Flórída, sé helsti sigurvegari kosninganna. Hann var endurkjörinn með tæplega 60 af hundraði atkvæða og fékk talsvert betri útkomu en Donald Trump í forsetakosningunum 2020. Margir stjórnmálaskýrendur vestra telja DeSantis eiga góða möguleika á að verða forsetaefni Repúblikana í kosningunum 2024 og geta skotið Trump, fyrrverandi forseta, ref fyrir rass.
Útvöldum Trumpistum gekk frekar illa
Fréttaskýrendur vestan hafs benda margir á að þeir frambjóðendur sem Donald Trump studdi hafi ekki náð þeim árangri sem þeir vonuðust eftir. Þannig tapaði sjónvarpsstjarnan og hjartalæknirinn Memhmet Oz fyrir John Fetterman í Pennsylvaníu um sæti í öldungadeildinni. Margir telja að hófsamari Repúblikani hefði náð betri árangri og það gildi í mörgum öðrum kosningum þar sem frambjóðendur sem Trump blessaði sérstaklega náðu ekki viðunandi árangri.
„Ron DeSanctimonious“
Donald Trump telur Ron DeSantis greinilega hættulegan keppinaut og hefur uppnefnt hann Ron DeSanctimonious (skinhelgan/hræsnara) og hótað að ljóstra upp ótilteknum leyndarmálum um DeSantis. Trump sagði einnig fyrir kosningarnar að það yrði sér að þakka ef frambjóðendur sem hann hafði sérstaka velþóknun á næðu kjöri en ekki yrði við sig að sakast ef þeir töpuðu: „I think if they win, I should get all of the credit, and if they lose, I should not be blamed at all...“
Heimsglugginn
Úrslit kosninganna í Bandaríkjunum voru meginefni Heimsgluggans á Morgunvaktinni á Rás 1 þegar Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu erlend málefni. Þeir ræddu einnig stjórnmálastöðuna í Færeyjum þar sem boðað hefur verið til kosninga eftir að Miðflokkurinn hætti í samsteypustjórn hægriflokka.