Nýtt fólk hefur tekið við stjórn í Bretlandi og Svíþjóð, Rishi Sunak kom í stað Liz Truss sem forsætisráðherra Bretlands, í Svíþjóð hefur hægri stjórn tekið við af ríkisstjórn Jafnaðarmanna. Nýir leiðtogar voru í eldlínunni í þingumræðum. Í Bretlandi þótti Sunak standa sig vel í fyrsta fyrirspurnatíma forsætisráðherra. Þingmenn Íhaldsflokksins studdu vel við bakið á honum. Í sænska þinginu var meiri ró yfir umræðum.
Heimsglugginn
Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu þessi mál í Heimsglugganum, minntust einnig á kosningar í Brasilíu á sunnudag og í Danmörku næsta þriðjudag þar sem margt bendir til þess að gamli pólitíski refurinn Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, geti verið í lykilstöðu og ráðið hvort hægri- eða vinstristjórn taki við.
Sunak fer vel af stað
Rishi Sunak fer allt öðru vísi af stað en Liz Truss, hann talaði t.d. strax við skosku stjórnina, Liz Truss ræddi aldrei við Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, meðan á stuttum og nöturlegum ferli í forsætisráðuneytinu stóð.
U-beygja Hunts
Jeremy Hunt var raunar búinn að taka U-beygju í nánast öllum stærstu stefnumálum Truss eftir að hann tók við fjármálaráðuneytinu af Kwasi Kwarteng. Sunak bætti um betur í gær þegar frakking-leit að jarðgasi var aftur bönnuð. Sunak var greinilega afar vel undirbúinn undir fyrirspurnatímann í gær en hann fetaði í fótspor Boris Johnsons með taktík í svörum.
Útúrsnúningar og spurningum ekki svarað
Sunak sneri út úr öllum erfiðum spurningum með því að ráðast á fyrirspyrjanda, eins og þegar hann var spurður um af hverju Gavin Williamson hefði verið skipaður aftur í ríkisstjórnina þegar hann var rekinn fyrir leka og væri þar með hætta fyrir þjóðaröryggi. Í stað þess að svara beint sagði Sunak að þingmenn Verkamannaflokksins hefðu verið á þeim tíma ákafir stuðningsmenn leiðtoga sem hefði viljað afskaffa kjarnorkuvopn.
Umdeild skipan Suellu Braverman
Það var einnig ráðist á skipan Suellu Braverman aftur í embætti innanríkisráðherra. Hún þurfti að segja af sér eða var rekin vegna brota á reglum um ráðherra. Íhaldsmenn segja að það sé vegna þess að Sunak vilji hafa fleiri en aðeins stuðningsmenn sína í ríkisstjórninni. Sunak vék sér hins vegar undan því að svara hvort embættismenn hefðu varað við því að skipa hana vegna brotsins sem leiddi til þess að hún var rekin í síðustu viku.
Miklu betri andi í röðum Íhaldsmanna
Það var greinilegt að andinn meðal Íhaldsþingmanna var allur annar og miklu betri en síðustu misseri, miklu meiri stuðningur við Rishi Sunak en heyrst hefur í Neðri málstofunni í langan tíma. Íhaldsþingmaður sagði að flokkurinn hefði spilað út „wild card og joker“ (Boris Johnson og Liz Truss) en nú hefðu þau spilað út ásnum. Íhaldsþingmennirnir voru svo ákafir í stuðningi sínum að þingforseti þurfti að stöðva Sunak þegar hann ætlaði að taka til máls til að biðja þingmenn um að hlífa húsgögnunum.
Sagði Íhaldsflokkinn hafa lagt efnahaginn í rúst
Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar, sakaði Íhaldsflokkinn um að hafa lagt efnahaginn í rúst og einhver þyrfti að borga. Rishi Sunak viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð, það væri ástæðan fyrir því að hann væri forsætisráðherra. Hann kvaðst ekki ætla að fegra hlutina heldur takast á við erfiðleika og breska þjóðin gæti treyst slíkum leiðtogum.
Orðahnippingar Starmers og Sunaks
Stjórnarandstaðan krafðist kosninga, sagði að Rishi Sunak væri umboðslaus, hann sagði að Rishi Sunak hefði aldrei unnið í kosningum, hann hefði tapað fyrir fyrrverandi forsætisráðherra sem sjálf hefði tapað fyrir kálhaus. Þetta vakti kátínu stjórnarandstöðunnar. Viðbrögð Sunaks voru að saka Verkamannaflokkinn um að hafa viljað hafa að engu vilja bresku þjóðarinnar í atkvæðagreiðslunni um Brexit.
Mildari umræður í sænska þinginu
Leiðtogaumræður voru í sænska þinginu í gær, þær voru miklu mildari á milli forsætisráðherra og leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Ulf Kristersson forsætisráðherra sagði að nýja stjórnin ætlaði að gerbreyta sænskum stjórnmálum en hún væri auðmjúk gagnvart fyrir verkefnunum. Hlutirnir gætu versnað áður en þeir bötnuðu. Magdalena Andersson, formaður Jafnaðarmanna og fyrrverandi forsætisráðherra, var yfirveguð og sagði að Jafnaðarmenn ætluðu sér áfram að vinna í þágu sænsku þjóðarinnar, líka þegar þau væru komin í stjórnarandstöðu.
Minni spámenn hvassari
En það kom til hvassari orðaskipta, ekki á milli Kristerssons og Anderssons, heldur smærri spámanna og einkum þegar talað var um umhverfismál, velferðarmál og dóms-og lögreglumál. Jimmie Åkeson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, sem eru stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, sagði að síðustu átta ár hefðu verið glötuð ár þegar ekkert hefði verið gert til að brjóta glæpagengin á bak aftur og ná tökum á þeim.
„Éta stefnumál Svíþjóðardemótkrata“
Nýja stjórnin fékk á baukinn í ræðu Annie Lööf, formanns Miðflokksins, sem lét fyrrum bandamenn sína í bandalagi hægriflokka heyra það.
Það er stundum sagt að maður sé það sem maður borðar og því vil ég ráðleggja fyrrum bandamönnum mínum að huga að mataræðinu því þau hafa ekki tuggið annað síðustu vikur en pólitík Svíþjóðardemókrata.
Samstaða í öryggis- og varnarmálum
Mats Knutson, aðalstjórnmálaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins, sagði að Magdalena Andersson hefði rétt út höndina til Kristerssons forsætisráðherra og boðið áframhaldandi samvinnu í öryggis-og varnarmálum. Stjórnin og Jafnaðarmenn eru sammála um NATO-aðild og einarðan stuðning við Úkraínumenn í stríðinu við Rússa. Í öðrum málum má hins vegar búast við nokkuð hörðum átökum.
Jöfn staða í Danmörku
Tvær flokkablokkir berjast um völdin í Danmörku, sú rauða þar sem mið- og vinstriflokkar fylkja sér saman og bláa blokkin með mið- og hægriflokkum. Skoðanakannanir að undanförnu sýna að lítill munur sé á fylgi þeirra, en fylgi vinstrimanna sé þó meira en ólíklegt sé að rauða blokkin geti myndað stjórn án stuðnings Moderaterne. Það er flokkur sem gamli pólitíski refurinn Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, stofnaði eftir að hann hrakist úr Venstre. Hann gæti orðið í lykilstöðu og ráðið hvort hægri- eða vinstristjórn taki við eftir kosningar.