Hæstiréttur Breta hefur til meðferðar kröfu skosku stjórnarinnar að fá að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands í trássi við vilja bresku stjórnarinnar. Meirihluti skoska þingsins vill halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu en breska stjórnin harðneitar, segir að allir hafi skilið málið svo að langur tími yrði að líða frá síðustu atkvæðagreiðslu uns efnt yrði til nýrrar. Skotar felldu tillögu um að lýsa yfir sjálfstæði 2014, 55% vildu halda sambandinu óbreyttu.

Brexit breytti forsendum

Sjálfstæðissinnar segja að allar forsendur hafi breyst við útgöngu Bretlands úr ESB í trássi við skýran vilja meirihluta Skota. Dorothy Bain, aðallögmaður skosku stjórnarinnar segir að lög séu ekki skýr. Skoska stjórnin segir að hún þurfi ekki að fá leyfi bresku stjórnarinnar vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði ekki bindandi heldur ráðgefandi og skosku stjórninni eigi að vera heimilt að leita ráða hjá skosku þjóðinni. Það sé mál þingsins í Holyrood í Edinborg að ákveða.

Bretar segja lögin skýr

Breska stjórnin segir að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um samband Bretlands og Skotlands og gildandi lög séu skýr um að það sé málefni stjórnarinnar og þingsins í Westminster. Þar að auki sé ekki hægt að biðja Hæstarétt um að taka afstöðu til gildis laga um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki hafa verið samþykkt. Breska stjórnin krefst þess að málinu verði vísað frá. Ekki er búist við niðurstöðu hæstaréttar Bretlands á næstunni.

Heimsglugginn

Þetta ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1 og einnig erfiða stjórnarmyndun í Svíþjóð og kosningabaráttuna í Danmörku þar sem kosið verður til þings 1. nóvember.