Í dag er hálft ár síðan rússneski herinn gerði innrás í Úkraínu. Valur Gunnarsson, sem staddur er í Kænugarði á þjóðhátíðardegi Úkraínumanna, segir almenning halda sig til hlés í dag af ótta við árásir á höfuðborgina.
Lítið er um hátíðarhöld í dag, fjöldasamkomur hafa verið bannaðar vegna aukinnar hættu á árásum á þessum þýðingarmikla degi.
„Rússar hófu í nótt stórfelldar loftárásir á Úkraínu. Landher virðist stefna að borginni Kharkív, næst stærstu borg landsins. Tugir manna hafa fallið bæði almennir borgarar og hermenn.“
Svona hóf Broddi Broddason lestur hádegisfrétta 24. febrúar.
Rússar gerðu innrás í landið aðfararnótt þessa fimmtudags og með því gjörbreyttist heimsmyndin og líf fólksins í Úkraínu. Undangengnar vikur höfðu borist fréttir af liðssöfnuði tuga þúsunda rússneskra hermanna við landamærin, en fæstir trúðu því að innrás væri yfirvofandi.
Hálfu ári síðar hafa óteljandi hörmungar dunið á úkraínsku þjóðinni, sprengjum rignt yfir borgir og bæi og almennir borgarar verið myrtir á götum úti. Samkvæmt nýjustu tölum Sameinuðu þjóðanna hafa fimm þúsund fimm hundruð áttatíu og sjö menn, konur og börn fallið í átökunum og hátt í átta þúsund særst. slasast. Þetta er þó aðeins sá fjöldi sem Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest og grunur leikur á að manntjón meðal almennra borgara sé mun meira.
Í hádegisfréttum var rætt stuttulega við Val Gunnarsson, sagnfræðing og rithöfund, sem er í Kænugarði en í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtalið í fullri lengd.
Valur er í Kænugarði á þjóðhátíðardegi Úkraínumanna, en þá er yfirleitt mikið um dýrðir. Hann segir fólk áhyggjufullt og að það haldi sig innandyra af ótta við sprengjuárásir á höfuðborgina.
Fór ekki í skólann, sem er nærri höfuðstöðvum leyniþjónustunnar
„Á þessum tveimur mánuðum sem ég hef verið hérna hef ég í aldrei séð fólk jafn smeykt. Maður er svo vanur því að fólk hundsi loftvarnarflauturnar og eiginlega hegði sér bara eins og vanalega“ sagði Valur. Hann segir áberandi fjölda fólks hafa farið úr borginni fyrir daginn í dag.
Eins var honum ráðlagt að fara ekki í tungumálaskólann sinn í dag, þar sem hann er við hliðina á höfuðstöðvum úkraínsku leyniþjónustunnar.
Spennan aukist síðustu daga
Spennan milli ríkjanna tveggja hefur farið vaxandi síðustu daga, ekki síst eftir morðið á dóttur eins helsta bandamanns Pútíns, sem Úkraínumönnum er kennt um og hefur vakið mikla reiði í Rússlandi.
Því hafa margir spáð þungum árásum í dag, en Valur telur það einnig geta orðið á næstu dögum. Hann tekur undir orð þjóðarleiðtoga sem hafa undanfarna daga varað við því að stríðið í Úkraínu gæti varað lengi.
„Það er ekki ósennilegt að Rússar láti þessa dagsetningu bara fram hjá sér fara og svo á morgun eða hinn fari þeir að gera eitthvað.“
Valur bindur litlar vonir við friðarviðræður, eins og staðan er nú.
„Friðarviðræður, eða hvað þá friðarsamningar, virðast eiginlega alveg útilokaðir nema mikið breytist. Þannig því miður er ekkert sem bendir til þessu að fari að ljúka, nema Pútín hrökkvi skyndilega upp af eða eitthvað álíka gerist,“ sagði Valur Gunnarsson.