Rússar bjóða föngum sakaruppgjöf ef þeir eru reiðubúnir til að berjast í Úkraínu að því er samtök sem hjálpa föngum segja. Fangarnir ganga til liðs við ,,Wagner-hópinn" sem eru samtök málaliða, að sögn tengd rússneskum stjórnvöldum. Talið er að allt að 3000 fangar hafi þegar gengið í Wagner-hópinn til að berjast í Úkraínu og tugir þúsunda bætist við á næstu mánuðum.
Rússland á bak við rimla
Olga Romanova, stofnandi samtakanna ,,Rússland á bak við rimla" sagði þetta í viðtali við SVT, sænska ríkissjónvarpið í gærkvöld. Samtökin voru stofnuð 2008 til að berjast fyrir réttindum og hagsmunum fanga. Rússnesk stjórnvöld hafa lýst samtökin útsendara erlendra aðila eins og mörg önnur mannréttinda- og óháð samtök. Romanova stofnaði Rússland á bak við rimla eftir að eiginmaður hennar var handtekinn og fangelsaður.
Heitið sakaruppgöf
Í frétt sænska sjónvarpsins var leikin upptaka af viðtali sem Romanova átti við ónefndan fanga sem var í hópi sem er á leið á vígstöðvarnar. Hann sat á bak við lás og slá fyrir morðtilraun og sagði að sér hefði verið heitið háum launum og sakaruppgjöf ef hann gengi til liðs við Wagner-hópinn.
Heimsglugginn
Fjallað var um þessi mál og Wagner-hópinn í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar-1, þar var einnig fjallað um stjórnmál í Svíþjóð og Danmörku, þurrka og hita í Evrópu og gjaldþrot Dominos-pitsu staðanna á Ítalíu.