Auðugasta hluti Svía - oft kallaður eina prósentið - á stærri hluta af heildarauði landsmanna en eina prósentið í Bandaríkjunum. Rúmlega fimm hundruð ríkustu Svíarnir eiga jafn mikið og áttatíu prósent landsmanna. Þótt fátækt í Svíþjóð sé með því minnst sem þekkist, er að sumu leyti mikil og vaxandi efnahagsleg misskipting í Svíþjóð.
Svíþjóð hefur lengi verið þekkt sem öflugt velferðarsamfélag, þar sem mikill jöfnuður ríkir. Og í alþjóðlegum samanburði er fátæk til dæmis lítil í Svíþjóð - þrjú til fjögur prósent - svipað hlutfall og í Finnlandi, Hollandi og á Íslandi; með því minnsta sem þekkist.
Samkvæmt gini-stuðlinum, sem notaður er til að mæla skiptingu efnislegra gæða innan þjóðfélaga, er líka tiltölulega lítil misskipting í Svíþjóð. En hún hefur verið að aukast jafnt og þétt á síðustu áratugunum.
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birtir upplýsingar um gini-stuðul 168 landa á heimasíðu sinni, þótt tölurnar séu reyndar frá mismunandi árum. Sé löndunum raðað upp, þá er Ísland í níunda sæti yfir þau lönd þar sem minnst efnahagsleg misskipting er. Norðurlöndin Finnland, Noregur og Danmörk, eru í sætum þrettán til fimmtán. Svíþjóð er lang neðst Norðurlandanna - í sæti tuttugu og fjögur. Næstu lönd þar á eftir eru Írak, Gínea og Pakistan.
Og þótt það sé talsverður jöfnuður í Svíþjóð, eru tveir hópar byrjaðir að skera sig nokkuð úr: Annars vegar er fólk með litlar atvinnutekjur - til dæmis langveikt fólk eða atvinnulaust. Staða þeirra hefur versnað til muna á síðustu áratugum. Í hinum hópnum eru þau sem hafa allra mest milli handanna. Þau ríkustu eru orðin miklu ríkari.
Í Svíþjóð eru nú vel á sjötta hundrað milljarðamæringar - fólk sem á yfir milljarð sænskra króna. Það er jafnvirði þrettán milljarða íslenskra króna. Einhverjir forstjórar á ofurlaunum eru þeirra á meðal. En líka fólk sem hefur erft mikil auðæfi og tilheyrir gamalgrónum, vellauðugum fjölskyldum. Og svo eru fjárfestar - fólk sem hefur hagnast á verðbréfaviðskiptum, oft í gegnum vogunarsjóði, eða fasteignaviðskiptum. Og þau sem grætt hafa milljarða á tækninýjungum, einst og t.d. Spotify.
Mikil fjölgun hefur verið í þessum hópi ofur-ríkra, á allra síðustu árum. Fyrir þremur árum voru rúmlega 200 milljarðamæringar í Svíþjóð. En hefur nú fjölgað í 542, samkvæmt útreikningum blaðamannsins Andreas Cervenka. Hann segir fjölgunina meðal annars skýrast af aðgerðum stjórnvalda í covid-faraldrinum.
Stjórnvöld og seðlabankinn settu gríðarlegar fjárhæðir í að styðja við efnahagslífið. Og ýttu þannig undir það að verðbréfa- fasteigna-markaðurinn ofhitnaði. Um leið óx auður þeirra allra ríkustu mjög mikið á skömmum tíma, sagði Cervenka í þætti sænska ríkisútvarpsins um efnahagsmál.
Þessir milljarðamæringar eiga mjög stóran hluta af heildareignum landsmanna hér í Svíþjóð. Milljarðamæringarnir 542 eiga alls 16% af auðæfum landsmanna. Og þá er húsnæði fólks og eftirlaunaréttindin talin með. Séu þessar grunneignir ekki teknar með í reikninginn, hækkar hlutfall milljaðamæringanna af heildareignum landsmanna í 37%. Það jafn mikið og eignir áttatíu prósenta fullorðinna í Svíþjóð.
Ríkasta eina prósentið í Svíþjóð, og ríkasta núll komma eitt prósentið, á stærri hluta af heildareignum landsmanna heldur en raunin er í Bandaríkjunum. Og þar munar miklu, segir Cervin.
Raunin er, segir Cervenka, að það er meiri efnahagslegur mismunur í Svíþjóð heldur en í næstum nokkru öðru landi.
Á sama tíma borgar ríkasti hópurinn tiltölulega lítið í skatta. Á síðstu þrjátíu árum hafa skattar lækkað talsvert hér í Svíþjóð. Þótt þeir séu enn háir í alþjóðlegu samhengi. Það er að segja þegar kemur að sköttum á laun.
Skattar á fjármagn og eignir eru lágir og hafa verið lækkaðir mikið á síðustu áratugum. Eða hreinlega verið afnumdir - eins og til dæmis stóreignaskattur, erfðafjárskattur, skattur á gjafir og fasteignaskattur.
Við þetta bætast ýmiskonar nýjungar sem draga úr sköttum á eignir og auðæfi. Og segir Cervenka að skattar á eignir, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, séu talsvert lægri í Svíþjóð en í löndum eins og til dæmis Bandaríkjunum.
Í þessu samhengi er Svíþjóð hálfgerð skattaparadís, segir Cervenka. Þeir sem eru bara með fjármagnstekjur greiða bara örfá prósent af sínum tekjum í skatta.
Við þetta bætist að lágtekjufólk í Svíþjóð greiðir nokkuð háa skatta. Fólk sem er með jafnvirði um 260 þúsund íslenskra króna á mánuði, borgar um 22,5% í skatt, segir Cervin. En það sé ekki óalgengt að hátekjufólk borgi miklu minna í skatt. Oft 18% eða 13% af tekjum sínum - tekjum sem kannski nema jafnirði tuga milljóna á mánuði.
Þetta er Kári Gylfason sem talar frá Gautaborg.