Það yrði Rússum ekki í hag að ráðast lengra inn í Úkraínu telur Valur Gunnarsson sagnfræðingur og rithöfundur en vonar að stríðsreksturinn magnist ekki enn. Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra telur að stærri hernaðaraðgerðir en þeir hafa þegar ráðist í séu mögulegar en ekki stefni í stríð Rússa og NATO-ríkja.

Rússneskir hermenn fóru í gærkvöld inn í héröðin Luhansk og Donetsk skömmu eftir að Vladimir Pútín, forseti Rússlands lýsti því yfir að Rússar viðurkenndu sjálfstæði þessara héraða og teldu þau ekki lengur hluta Úkraínu. Alþýðulýðveldið Donetsk og Alþýðulýðveldið Luhansk væru sjálfstæð og fullvalda ríki. Pútín sagði að rússnesku hersveitirnar ættu að gæta friðar á svæðinu. Ávarp Pútins er sagt hafa verið fullt af heift, hatur NATO-ríkja á Rússlandi hafi skapað þessar aðstæður, fall Sovétríkjanna hafi verið sögulegt slys og Úkraína sé varla ríki.

Vestrænir leiðtogar gefa lítið fyrir orð Pútíns um friðargæslu og hafa sagt að hríð refsiaðgerða verði látin dynja á Rússum eins og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands orðaði það. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra segir að yfirlýsing Rússlands sé brot á alþjóðalögum og vegið sé að alþjóðlega viðurkenndum landamærum í krafti hervalds. Ísland taki þátt í aðgerðum til að bregðast við aðgerðum Rússlands. Þegar eru í gildi refsiaðgerðir frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.  ­Varnarmálaráðherra Úkraínu brýndi úkraínska hermenn í dag og sagði þeim að búa sig undir stríð. Það yrði erfitt og búast mætti við sársauka, ótta og örvæntingu en þótt orrustur töpuðust yrði sigurinn Úkraínumanna. Vladimir Pútín hefði í gær sýnt sitt rétta andlit, það væri ásjóna glæpamanns sem vildi halda veröldinni allri í gíslingu. 

Valur Gunnarsson sagnfræðingur og rithöfundur er vel að sér í málefnum Rússlands og Úkraínu þar sem hann lagði stund á nám. Hann efast um að yfirlýsingar Pútíns lýsi ríkjandi viðhorfi Rússa til landsins. Kært hefði verið með Rússar og Úkraínumenn sem væru frændþjóðir og hæpið að hinn almenni Rússi bæri kala til Úkraínu. Þar hefði hins vegar verið alið á andúð til Rússa og kannski ástæða til. 

Valur segir að um fjórar milljónir manna búi í þessum héröðum og margir þeirra líti á sig sem Rússa - en ekki allir. Þetta voru áður mikil iðnaðarhéröð. Járn og stálframleiðsla var þar allt frá á keisaratímum en með minnkandi eftirspurn í seinni tíð hafi verið þarna mikil fátækt og atvinnuleysi og margir talið það til heilla að kljúfa sig frá Úkraínu. Niðurstaðan af því hafi ekki verið góð, þarna hafi verið stríð og margir, sérstaklega ungt fólk flutt á brott. Því telur hann ekki líklegt að önnur héröð vildu feta sömu leið.

Rússar byrjuðu á sínum tíma á að viðurkenna sjálfstæði Krímskaga og innlimuðu hann svo í Rússland. Valur segir óvíst hvort sama verði raunin núna en það yrði ekki Rússum í hag. Eiginlega væri það Pútín hagstæðara að halda þessum héröðum innan Úkraínu en þau hliðholl Rússum. Það eina sem Pútín græddi með því að hafa rússneskan her innan Úkraínu væri að gulltryggja að útiloka endanlega inngöngu Úkraínu í NATO. 

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra sem er sérfróður um alþjóðastjórnmál telur enn mögulegt að Rússar fari í stærri hernaðaraðgerðir. Þá væri markmiðið stærra en bara að ná völdum í þessum héröðum sem væru tiltölulega smá. Hættan sé enn til staðar. Það eina sem Vesturlönd geta gert er það sem þau hafa hótað að gera og þar vísar Albert í viðskiptaþvinganir. Hann telur útilokað að komi til hernaðar milli NATO-hermanna og Rússlands. 

Stjórnvöld í Úkraínu hafa kallað eftir snöggum og skörpum viðbrögðum úr vestri en eins og Albert sagði er ekki líklegt að herlið NATO komi til hjálpar. Viðskiptaþvinganir þær sem þegar eru í gildi hafa komið niður á efnahag Rússa, talið að þær hafi kostað þá um fimm prósent af þjóðarframleiðslu og dregið nokkuð úr vinsældum Pútíns þó að fátt virðist hagga honum. Valur segir að ef menn tala um að nú séu þær í tveimur af tíu væri hægt að skrúfa þær upp þó að það yrði ekki í botn strax. Þjóðverjar eru hættir við Nordstream-jarðgaslínuna og það er mikið högg fyrir Rússa. Nærri helmingur af útflutningi Rússa er til Evrópu og allur samdráttur skaðar þá, ekki síst ef hann dregst á langinn. Valur vonar að stríðsreksturinn magnist ekki.