Franski líkamshryllingurinn Titane kom gestum Lestarklefans, sem sumir hverjir höfðu alls ekki hugsað sér að sjá að eigin frumkvæði í myrkum kvikmyndasal, skemmtilega á óvart. „Ég var nálægt því að gefast upp, en sem betur fer hélt ég áfram.“
Kvikmyndin Titane hlaut Gullpálmann í Cannes í sumar og er önnur mynd Juliu Ducournau leikstjóra. Myndin fjallar um konu sem dansar erótíska dansa á bílasýningum, hún er bæði miskunnarlaus raðmorðingi og elskar bíla, og það bókstaflega. Þegar hún leggur á flótta undan lögreglu rennur það upp fyrir henni að hún gengur með barn eftir myndarlegan kádilják. Hún bregður á það ráð að þykjast vera drengur sem týndist fyrir áratugum síðan og flytur inn til föður hans, sem er steraþrútinn slökkviliðsstjóri, og með þeim takast einhvers konar kærleikar.
Rætt var um myndina í Lestarklefanum á Rás 1, umræðuþætti um menningu og listir. Gestir þáttarins voru Magnea Guðmundsdóttir arkitekt, Þórir Georg Jónsson tónlistarmaður og Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona.
Titane er alls ekki fyrir viðkvæma og voru sumir gestir Lestarklefans uggandi yfir því að þurfa að sjá hana. „Ég þurfti að líta undan fyrsta hálftímann eða svo,“ segir Magnea. „Þetta er hræðilegt ofbeldi og hryllingsmyndastemning yfir þessu. Síðan á hún í ástarmökum við kádilják og þá kviknaði reyndar á einhverju, að þetta er súrrealískt, artí og töff. Ég var nálægt því að gefast upp, en sem betur fer hélt ég áfram. Eftir 30-40 mínútur fannst mér hún frábær. Hún er mannleg og snertir á erfiðum tilfinningum...Ég held að ég mæli með þessari mynd þrátt fyrir allt.“
Myndin kom Guðrúnu einnig mjög á óvart. „Mér fannst hún æðisleg. Þetta er mynd sem skilur eitthvað eftir og maður setur ýmislegt í samhengi, hvernig bílar og tæki eru kyntákn í nútímanum. Það er farið alla leið með það í myndinni. Það er heil runa af myndum sem fjalla um bíla sem hafa sjálf og taka yfir heiminn – og af hverju ekki að ríða stúlku?“
Hún segir að þetta sé mynd sem karlmaður hefði aldrei getað gert, sem rímar við það sem leikstjórinn sjálfur hefur sagt um hrollvekjur kvenna. Ofbeldið í hrollvekjum kvenna sé sértækt, það sé einkum ofbeldi sem komi innan frá, sem þarf að kljást við innra með manneskjum, en ekki eitthvað sem berjast þurfi gegn.
Þórir Georg segir myndina stórkostlega og hún ætti að höfða til kvikmyndalúða með ýmsum tilvísunum í líkamshrylling Davids Cronenbergs auk ólínulegrar framvindu sem minni á kvikmyndir Jean-Luc Godard. Merkilegast þótti honum einbeittur vilji Ducournau til að skapa heim sem áhorfandinn á erfitt með að fóta sig í. „Það virtist ekkert vera hugsað um hversu raunverulegt þetta væri fyrir áhorfandann. Samt eru svo miklar tilfinningar og mikill raunveruleiki í henni. Þjáning og erfiðleikar aðalpersónunnar skinu svo mikið í gegn. Erfiðustu atriðin voru þegar hún var að beita sjálfa sig ofbeldi, þá fékk ég í magann, en allt hitt var góð hryllingsmynd.“
Rætt var um Titane eftir Juliu Ducournau í Lestarklefanum á Rás 1. Umsjón hafði Kristján Guðjónsson.