Fólk um heim allan fylgdist með blaðamannafundi sænskra yfirvalda 10. júní þegar saksóknari yfir rannsókninni á morðinu á Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti niðurstöður sínar og batt enda á 34 ára langa rannsókn. Marga rak þó í rogastans þegar saksóknari bendlaði auglýsingateiknara á sextugsaldri við þennan alræmdasta glæp sænskrar sögu.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 rakti árið 2016 í tveimur þáttum atburðarásina kvöldið sem Palme var myrtur og rannsóknina sem fór í hönd. Þá þætti má finna hér. 

Í þessum þriðja þætti er farið yfir efni blaðamannafundar yfirvalda og ævi Stig Engströms, hins meinta morðingja. Heyra má hann í spilaranum hér að ofan.

Fæddur á Indlandi

Stig Engström fæddist 1934 í Múmbaí á Indlandi þar sem faðir hans vann í eldspýtnaverksmiðju í eigu Svía. 

Ellefu ára var Stig sendur einn heim til Svíþjóðar til ættingja. Hann gekk um tíma í sama fína heimavistaskóla og Olof Palme hafði útskrifast úr nokkrum árum áður, en gekk almennt illa í námi. 

Hann var þó flinkur að teikna og eftir námskeið í grafískri hönnun fór hann að vinna sem hönnuður og teiknari — fyrst hjá sænska hernum, svo ríkisútvarpinu og loks hjá tryggingafélaginu Skandia. 

Kom sjálfur fram

Það var á götuhorni rétt fyrir utan höfuðstöðvar Skandia í miðborg Stokkhólms sem Palme-hjónin voru skotin 28. febrúar 1986.

Engström hafði sjálfur samband við lögreglu eftir morðið. Sagðist hann hafa unnið fram eftir þetta kvöld, og komið á vettvang aðeins andartökum eftir að Olof Palme féll til jarðar. 

Hann vildi meina að framburður ýmissa vitna um að morðingi Palmes hefði verið í klæddur í dökkan frakka hafi verið misskilningur, þar eð hann sjálfur hafi verið í dökkum frakka þetta kvöld. Næstu vikur var hann duglegur við að vekja athygli á sér við bæði lögreglu og fjölmiðla.

Framburður Engströms var þó reikull og þótti ósannfærandi, svo að hann var að lokum afskrifaður sem athyglissjúklingur eða kverúlant — nokkuð sem Krister Petersson saksóknari vill nú meina að hafi verið mikil mistök. 

Í þættinum er farið yfir það sem saksóknari taldi benda til þess að það hafi verið auglýsingateiknarinn Stig Engström sem mundaði byssuna kvöldið 28. febrúar 1986 og varð Olof Palme að bana. 

Alls ekki allir eru þó sannfærðir um að kenning saksóknarans sé rétt — enda engin ný sönnunargögn sem benda til sektar Engströms. Og sjálfur getur hann ekki svarað fyrir sig, hann lést árið 2000. 

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Fyrri þætti má finna á síðu þáttarins, í Spilara og hlaðvarpi RÚV