Sanna Marin, nýr forsætisráðherra Finnlands er yngsti þjóðarleiðtogi heims um þessar mundir og yngsti forsætisráðherra Finnlands frá upphafi. Hún fer fyrir fimm flokka ríkisstjórn þar sem konur veita öllum flokkunum forystu.

Sanna Marin er varaformaður finnskra jafnaðarmanna og gegndi embætti samgönguráðherra í ríkisstjórn Antti Rinne. Hann baðst lausnar fyrir viku síðan þegar hann naut ekki lengur trausts stjórnarflokksins Miðflokksins. 

Og í dag samþykkti finnska þingið Marin í embætti forsætisráðherra landsins. 99 voru með, 70 á móti og 30 fjarverandi. 

Marin er 34 ára og yngsti forsætisráðherra Finnlands frá upphafi. Og Marin er einnig yngsti þjóðarleiðtogi heims um þessar mundir. 

Auk hinnar 34 ára Marin í Jafnaðarmannaflokknum mynda fjórir aðrir flokkar ríkisstjórn Finnlands. Og þar eru konur alls staðar í forystu. 
Jafngömul forsætisráðherranum, 34 ára, er innanríkisráðherrann Maria Ohisalo, Græningjum.  Menntamálaráðherrann, Li Anderson, er formaður Vinstriflokksins. Hún er 32 ára. Katri Kulmuni, fjármálaráðherra, er einnig 32 ára, formaður Miðflokksins. Þá er það Anna-Maja Henriksson dómsmálaráðherra sem fer fyrir Sænska þjóðarflokknum, en hún er 55 ára. 

Og talandi um konur, þá mun þetta vera í fyrsta sinn sem fjórar konur gegna í einu embætti forsætisráðherra Norðurlandanna. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, er nú eini karlinn í þeim fimm manna hópi.