Samsýningin Vor var nýverið opnuð í Listasafninu á Akureyri. Þar má finna verk eftir þrjátíu ólíka listamenn.
Sýningin er þriðja samsýningin sem Listasafn Akureyrar setur upp á verkum norðlenskra listamanna. Fyrsta sýningin af þessu tagi var Haust árið 2015 og þar á eftir kom sýningin Sumar árið 2017.
Hlynur Hallsson, safnstjóri og sýningarstjóri sýningarinnar, segir tilganginn með slíkum samsýningum vera að sýna fjölbreytnina, bæði í efnistökum, miðlum og hugmyndum. Hann segir sýninguna óvenjulega þar sem listamenn sækja um að taka þátt. „Eina sýningin sem listasafnið stendur fyrir sem hefur þannig fyrirkomulag,” segir Hlynur. „Við fáum mikinn fjölda umsókna þar sem fólk sendir inn verk og svo er fimm manna dómnefnd sem velur úr, að þessu sinni var niðurstaðan verk eftir 30 listamenn, og mjög ólíka listamenn og verkin eru mjög ólík.“
Listamennirnir skilgreina sig sjálfir
Skilyrði fyrir þátttöku á sýningunni er að listamennirnir tengist Norðurlandi. Hlynur segir að þau hafi reynt að hafa þá skilgreiningu frekar opna. „Við leyfum listamönnum að skilgreina sig sjálfir, og það er nóg að vera fæddur á Norðurlandi, eða hafa búið hér í einhvern tíma en búa núna einhvers staðar annars staðar.“
Fjölbreyttur hópur listamanna
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru á öllum aldri. Yngsti listamaðurinn er rétt rúmlega tvítugur og elsta er komin undir nírætt. „Það er gaman að geta sýnt verk eftir listamenn sem að hafa lengi verið að og við þekkjum vel og við höfum séð verk eftir. En líka erum við með verk eftir listamenn sem hafa ekki verið að sýna mikið, og þó að maður telji að maður sé ágætlega inn í því sem er að gerast í myndlist, þá fær maður alltaf umsóknir frá listamönnum sem eru spennandi og eru að gera spennandi verk, sem maður hefur bara ekki heyrt af áður. Og það er auðvitað líka skemmtilegur hluti við svona sýningu,” segir Hlynur.
Uppreisn hinum megin við götuna
Á sama tíma og Listasafnið opnar sína samsýningu þá verður önnur sýning opnuð hinum megin við götuna, í Deiglunni. Þar má finna verk eftir listamenn sem af einhverjum ástæðum eiga ekki verk á sýningu Listasafnsins. Ástæðurnar geta verið að listamennirnir hafi ekki komist inn á samsýninguna, eða voru of seinir að sækja um, eða vildu ekki sækja um. „Það gerðist bara um leið og við tókum upp þennan þráð fyrir 5 árum, að þeir sem eiga ekki verk á þessari sýningu, þau ákváðu að setja upp sína eigin sýningu hérna hinum megin við götuna,“ segir Hlynur. „Það er auðvitað uppreisn í því og mér finnst það mjög flott yfirlýsing að gera það á sama tíma og þessi sýning opnar hér.“
Bara ein útgáfa
Hlynur segir að það verði gaman að sjá sýninguna í Deiglunni, bera þessar sýningar saman og velta hinni hliðinni líka fyrir sér. Hann segir sýningu Listasafnsins bara eina útgáfu af norðlenskri myndlistarsýningu. „Það hefði verið hægt að gera 20 eða 100 mismunandi sýningar, og dómnefndin er alltaf breytileg, 5 manna dómnefnd sem skiptist alltaf á milli ára. Þannig að þetta er líka mat, hvernig þau sjá fyrir sér hvað hentar saman og hvað er spennandi.“
Næst kemur vetur
En verður framhald á þessum samsýnginum? „Já, það er planið. Nú erum við búin með haust, sumar og vor þannig að það liggur frekar beint við að næsta sýning verði vetur og verður þá 2021. Og ég held það, að tvíæringur á norðlenskri myndlist er kominn til að vera.“