Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að allt kapp verði lagt á að klára kjarasamninga í kvöld eða nótt. Staðan sé farin að skýrast. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að fundarhöld hafi gengið vel í dag. Gert séð ráð fyrir að þau haldi áfram inn í kvöldið og jafnvel nóttina. Nú sé verið að hnýta lausa enda sem séu þónokkrir en fari ört fækkandi.

Ragnar Þór segir ekkert sérstakt tefja viðræðurnar. Samningsaðilar þurfi einfaldlega tíma til að klára þær. „Það er svo sem ekkert að tefja þetta, þetta tekur bara tíma og við þurfum tíma til þess að klára þetta og það er það sem við erum að gera núna. Við erum að klára þetta og ætlum okkur að vinna eitthvað fram eftir kvöldi og  jafnvel nóttu að klára kjarasamninginn. Þó að viljayfirlýsingin sé klár og vonandi svona hlutur stjórnvalda sé farinn að skýrast að þá þarf samt að klára kjarasamninginn. Hann hleypur ekki frá okkur.“

-Er staðan enn þá viðkvæm?

„Nei ég held að hún sé bara farin að skýrast og farið í að styttast í að þetta verði klárað og við þurfum bara að gefa okkur tíma og fá tíma til þess að klára þetta. Það er fyrst og fremst það sem við þurfum að gera núna áður en að við förum að kynna þetta. Þetta eru flóknir samningar og það er mikið undir þannig að það þarf að vanda til verka og það er það sem við erum að gera.“ 

Halldór Benjamín segir ferlið flókið en að vel hafi gengið í dag. Nú sé unnið að því að hnýta lausa enda sem séu þónokkrir en -þeim fari ört fækkandi. Hann óttast að viðræður standi yfir fram á nótt.  „Þetta er flókið ferli. Við mátum stöðuna fyrr í dag með þeim hætti að við yrðum reiðubúin um þetta leyti að stíga fram og greina frá innihaldi kjarasamninga og hvernig við sæjum þá þróast á næstu árum en það er lítið sem má út af bregða. En það hefur gengið vel hérna í dag og við gerum ráð fyrir því að það muni ganga vel inn í kvöldið og því miður óttast ég nóttina.“ 

-Þannig að þetta er ekki alveg klárt?

„Nei það er að mörgu að hyggja hérna á lokametrunum en ég held að það sé aðalatriðið að það hafi gengið vel hérna í dag. Ramminn er kominn og var undirritaður hér í gærkvöldi eða í nótt þannig að nú er verið að vinna út frá því og ganga frá og hnýta lausa enda sem að eru þó nokkrir, en þeim fer ört fækkandi. “

Ragnar segir að formlegar og óformlegar viðræður hafi staðið yfir við stjórnvöld í dag. Nú verði lögð áhersla á að skrifa undir. 

„Óformlega höfum við verið í viðræðum, bæði formlega og óformlega, við stjórnvöld í dag. Það hefur þá verið forsetateymi Alþýðusambandsins sem hefur leitt þær viðræður og mér sýnist ramminn vera að mótast bæði þeim megin og eins og hann gerði í nótt hjá okkur. Þetta verður í rauninni ekki klárað fyrr en við erum búin að skrifa undir og ég held að það sé bara skynsamleg nálgun eins og staðan er í dag að klára það ferli, klára samninginn og freista þess að skrifa undir í kvöld eða nótt eða á morgun og fara þá í að kynna efnisatriði samningsins. Ég held að það sé í rauninni farsæl lausn og farsæll ferill fyrir alla aðila að fara, “ sagði Ragnar Þór í kvöldfréttum sjónvarps.