Stjórnendur EBU, samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva, hafa tilkynnt Felix Bergssyni, fararstjóra íslenska hópsins í Eurovision, að framganga Hatara í gær hafi eftirmál. Óljóst er þó hver þau verða. Felix segir að sér hafi brugðið þegar nokkrir úr Hatara flögguðu palestínsku fánalitunum. Hann vonar að málið verði stormur í vatnsglasi sem gangi yfir á skömmum tíma, hvað hugsanlegar afleiðingar gagnvart EBU varðar.
„Mér brá bara, óneitanlega, og hafði einhvern veginn ekki búist við því að þetta kæmi. Þetta var ákvörðun listamannanna, algjörlega,“ segir Felix í viðtali við Björn Malmquist.
Forsvarsmenn Eurovision hafa boðað framhald á málinu. „Það verða einhverjir eftirmálar en ég veit það ekki á þessum tímapunkti. Ég hreinlega veit það ekki á þessum tímapunkti. EBU er búið að tilkynna mér að það verði einhver viðbrögð. Við sjáum bara til hver þau verða,“ segir Felix. „Það svo sem gátu allir vita að þarna eru menn með miklar skoðanir sem vildu koma þeim á framfæri. Ég vona að þetta sé bara stormur í vatnsglasi sem gangi yfir í nótt og á morgun.“
Felix sagðist ekki nógu kunnugur reglunum til að vita hvað kynni að gerast í framhaldinu.
Ákvörðun Hatara að veifa palestínsku fánalitunum setti mark sitt á það sem gerðist í græna herberginu. „Maður hætti eiginlega að fylgjast með atkvæðagreiðslunni,“ segir Felix. „Það kom öryggisvörður og tók fánana, krafði þau um fánana og tók þá. Ég bað þau um að skila öryggisverðinum fánunum, einfaldlega af öryggisástæðum. Svo fór ég í bara að huga að því að koma þeim inn í búningsklefa strax og þetta yrði búið, svo að þau yrðu ekki mikið innan um áhorfendur þegar þetta væri búið.“ Það gekk þó erfiðlega þar sem ýmsar leiðir í höllinni voru lokaðar. Þau enduðu inni í áhorfendahópnum en ekki var gerður aðsúgur að þeim, segir Felix. „Einhverjir kölluðu eitthvað.“
Nokkuð hefur verið rætt á samfélagsmiðlum að sjónvarpsmenn hafi verið fljótari að skipta af Hatara en öðrum keppendum eftir að flutningi lagsins var lokið og lítið um þá rætt. Felix gefur lítið fyrir samsæriskenningar um slíkt. „Ég held einfaldlega að málið með okkar atriði var að við vorum með gríðarlega flókna sviðsmynd. Það þurfti að keyra það alltaf í gang að koma sviðsmyndinni og hljómsveitinni af sviðinu til að það dygði tíminn sem póstkortið er. Þess vegna vorum við sett alltaf eftir auglýsingar til dæmis, af því það þurfti að koma sviðsmyndinni á svið. Ég held að það hafi einfaldlega verið svoleiðis. Allt þetta tal um að eitthvað hafi verið að hljóði, það er einfaldlega ekki rétt.
Felix segist stoltur af Hatara og að þau geti borið höfuð hátt. Það hefðu að vísu verið einhverjir hnökrar á sviðinu en hann telur að fæstir hafi tekið eftir því. Sjálfur hafi hann tekið eftir því þar sem hann hafi verið mikið í kringum Hatara og sveitin verið eins og vél til þessa í flutningi sínum á laginu.