„Við munum ekki svara því eins og stendur,“ segir Matthías Haraldsson aðspurður hvort von sé á uppákomu frá Hatara í Ísrael og hvort þau muni mögulega draga sig úr keppni. Hópurinn hélt til Ísrael í morgun.

„Við erum lögð af stað. Ferðalagið er hafið. Hatari er á leið til Ísrael að keppa í Eurovision 2019. Það er mikil stemning og gleði í hópnum og fólk ætlar að gera sitt besta. Það er langur dagur framundan, við eigum flug til London eftir nokkrar mínútur og svo er förinni heitið til Tel Aviv þar sem við lendum á miðnætti að staðartíma,“ segir Björg Magnúsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV sem fylgir hópnum eftir.

„Okkur líður bærilega. Það er spenningur, stress og togstreita en við ætlum að taka þetta allt samkvæmt áætlun,“ útskýrir Matthías Haraldsson annar söngvari Hatara.

„Þetta er ákveðin landsliðskeppni í froðusnakki. Við fylgjum því og mætum til leiks í ólympíubúningum,“ segir Klemens Nikulásson Hannigan söngvari um búning hópsins og rauðu gleraugun.

Felix Bergsson er fararstjóri íslenska hópsins. Hvernig hefur hann upplifað stemninguna kringum íslenska framlagið í ár? „Hún hefur verið rosalega góð. Það eru búið að vera svo gaman á leiðinni Það eru allir að segja gangi ykkur vel, meðal annars flugmaðurinn hjá Icelandair. Fólk er líka að segja við okkur að nú séu þau spennt því nú fyrst erum við með alvöru atriði. Það er gott að finna þessa stemningu.“

Við lendum á miðnætti í Tel Aviv og þar munu einhverjir fjölmiðlar bíða eftir okkur. Mér skilst að Hatari verði þar með yfirlýsingu. Það verður athyglisvert,“ segir Felix um ferðalagið framundan.

En er möguleiki á einhverri uppákomu, að Hatari valdi miklum usla og dragi sig jafnvel úr keppninni? „Við erum ekki tilbúnir að svara því eins og stendur,“ segir Matthías að lokum.