Völuspá er opnuð upp á gátt í nýjum útvarpsþáttum á Rás 1. Þar skyggnist Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor á Árnastofnun að tjaldabaki þessa þekkta og áhrifamikla kvæðis.

„Þetta eru fjórir þættir og ég reyni að fara aðeins inn í heimsmynd fólks á miðöldum, hvernig fólk horfði á heiminn; himininn og jörðina, og tala um þetta með tungutaki goðafræðinnar, þar sem guðirnir eru á himnum og við mennirnir á jörðinni,“ segir Gísli Sigurðsson um nýja útvarpsþætti um Völuspá. „Svo held ég áfram, tala um orðfærið, hvernig eldfjallalandslagið hér og eldgosin hafi getað orkað á fólk sem hingað kom. Hvernig þetta kemur allt saman í Völuspá þegar hún er að kljást við að lýsa heimsendi.“

Gísli segir að erindi Völuspár sé ekki minna núna en fyrir þúsund árum. „Í lokin tala ég um Völuspá sem þessa stóru myndhverfingu sem hún er, þar sem er verið að lýsa heimi goða og manna. Það er verið að draga upp mynd af ástandinu, eins og enn er gert í fréttum, þar sem allir eru að berjast og drepa hver annan og ljúga. Og að þessi hegðun muni leiða til þeirra glötunar sem Völuspá lýsir, það er samtíðin sem við erum ennþá í.“

Með hlutverk völvunnar sem flytur kvæðið fer Brynhildur Guðjónsdóttir en Pétur Grétarsson gerir hljóðmynd. „Völuspá er eitthvað sem ég þuldi í sveitinni þegar ég var að sækja beljurnar þegar ég var krakki,“ segir Brynhildur. „Völvan er ekki endilega manneskja sem veit alla hluti. Hún miðlar þeim. Hún er millistykki milli heima. Hún veit tilurð heimsins og hún hefur séð allt saman í gegnum aðra.“ 

Þegar völvan hefur flutt síðasta spádóminn deyr hún í túlkun Brynhildar. „Því sá sem er millistykki fyrir svona stóra sögu og sér að þó svo að jörðin komi upp úr ægi iðjagræn og við getum byrjað aftur kemur alltaf hinn dimmi dreki fljúgandi. Þetta er hin eilífa hringrás. Og ef þú þarft að miðla öllu þessu hlýturðu að ganga fram af þér og hverfa. Hún gerir það fyrir okkur.“

Pétur Grétarsson gekk út frá því að það væri ekki eftir neinu að herma þegar hann gerði hljóðmyndina. „Því það er verið að búa til heiminn í kvæðinu og hvers vegna ekki að leyfa músíkinni að verða til úr engu. Ég byrjaði á því að skjóta á Brynhildi allskonar rythmum og hljóðum meðan hún las og hún dokaði stundum við og bjó til hljóð með og það varð að einhverjum sarpi hljóða sem vonandi kristallast í einhverri músík.“

Kvæðið heillar Gísla jafn mikið í dag og þegar hann kynntist því fyrst. „Þetta opnaðist fyrir mér þegar ég var í námi hjá Haraldi Bessasyni í Kanada. Ég sat einn vetur hjá honum og las Eddukvæði, við vorum bara tveir. Og þarna opnaði hann eiginlega fyrir mér kvæðið og þessa stóru sýn á heimssöguna og hlutskipti manns og guða eða glímu manna við guðdóminn sem þarna birtist. Sú hrifning sem hann náði að vekja fylgir mér ennþá, ég er að reyna að koma henni til skila í þessum þáttum.“