Framkvæmdastjóri hjá Veðurstofunni segir mannslíf í hættu ef skriðusvæði eru ekki vöktuð. Skriðuföll hafa kostað 40 manns lífið frá árinu 1901. Stofnunin fer fram á auknar fjárveitingar til að vakta skriðusvæði betur.
Stórar skriður hafa verið áberandi á síðustu árum, til að mynda berghlaup í Öskju 2014 og í Hítardal síðasta sumar. Í síðustu viku höfuðkúpubrotnaði ferðamaður þegar grjót hrundi úr Reynisfjalli áður en stór skriða féll.
Veðurstofa Íslands sendi frá sér minnisblað eftir skriðuna í Hítardal þar sem óskað er eftir auknu fé til að kortleggja og vakta skriðusvæði. Á Veðurstofunni starfar nú aðeins einn skriðusérfræðingur.
Meiri líkur en áður að fólk sé þar sem skriður verða
Með auknum fjölda ferðamanna eru meiri líkur á að fólk sé statt þar sem skriður falla, en margir áfangastaðir ferðamanna eru þar sem skriður falla reglulega eða grjót hrynur úr klettum. Til dæmis við Almannagjá, Gullfoss, á Esju og við Svínafellsjökul.
Ingvar Kristinsson , framkvæmdastjóri eftirlits og spár, hjá Veðurstofunni segir það því afar mikilvægt að hefja vöktun. „Til að forða frá tjóni, það má segja að við höfum verið heppin að þessar skriður sem hafa fallið undanfarið hafa fallið að nóttu til þannig að fátt fólk hefur verið á staðnum, í Hítardal og Öskju, og aftur í Reynisfjöru fyrir stuttu síðan," segir Ingvar.
Ferðamannastaðir byggðir upp á skriðusvæðum
Stórar skriður eyðileggja allt sem á vegi þeirra verður og því gæti orðið stórslys ef slík skriða fellur á byggð, sumarbústaðasvæði eða fjölmenna ferðamannastaði. „Við höfum séð að það er verið að byggja upp ferðamannastaði á þekktum skriðusvæðum eða mögulegum skriðusvæðum og það gæti auðvitað orðið tjón á mannvirkjum og auðvitað er fólk í hættu, það eru líf í hættu þar sem það á við," segir hann.
Nákvæmar mælingar notaðar við vöktun
Meðal annars yrðu notaðar gervihnattarmyndir og nákvæmir togmælar við vöktun. Þá þurfi annan skriðusérfæðing. Veðurstofan áætlar að kostnaður sé 33 milljónir á ári, til þriggja ára. „Þeim er að fjölga þessum skriðum sem við verðum vör við og þær eru að verða stærri og meiri og það er kannski ein birtingamynd loftlagsbreytinga," segir Ingvar.