„Ég held að við þekkjum okkur öll dálítið í Bambínó,“ segir Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur um Vögguvísu eftir Elías Mar, sem er bók vikunnar á Rás 1. „Hún er ekki bara bundin þessum tíma, svo fjarri því. Hún fjallar um unglingalíf allra tíma.“

Vögguvísa eftir Elías Mar kom fyrst út árið 1950 og bregður upp mynd af lífinu ungmenna í Reykjavík á eftirstríðsárunum. Sagan segir af þremur örlagaríkum sólarhringum í lífi unglingsins Björns Sveinssonar, betur þekktur af félögum sínum sem Bambínó.

Vögguvísa er þriðja skáldsaga Elíasar en þessar fyrstu bækur hans eru jafnan taldar með fyrstu „Reykjavíkursögunum“, þar sem fjallað er um lífið í borginni, án nokkurra skírskotanna til sveitalífsins. Hún hefur tvisvar verið endurútgefin, fyrst árið 1979 og síðan 2012, þá með ítarlegum for- og eftirmála og slangurorðabók sem höfundur safnaði í þegar hann fylgdist með lífi ungmenna við undirbúning bókarinnar. Ásta Kristín segir að bókin hafi fengið jákvæða athygli þegar hún kom út eins og fyrri tvær bækur Elíasar. Einhverjum hafi þótt hún upphefja rótleysi, glæpahneigð og erlend menningaráhrif á ungu kynslóðina en aðrir litu málið öðrum augum. „Engu að síður var henni líka hampað fyrir að vera ádeila á bandarísku menningaráhrifin sem gerðu íslensku unglingana svona. Hún var svolítið lesin þannig, sem ádeila.“

Ástæðan fyrir því að bókin lifir og sé endurútgefin reglulega er að hún er ekki bundin samtíma sínum heldur sé tímalaus. „Hún fjallar um unglingalíf - getum við sagt - allra tíma. Ég held að við þekkjum okkur öll dálítið í Bambínó.“

Heyra má viðtal við Ástu Kristínu Benediktssdóttur, íslenskufræðing um Vögguvísu í spilaranum að ofan. Gestir þáttarins á sunnudag verða Sóla Þorsteinsdóttir menningarfræðingur og Valur Gunnarsson sagnfræðingur. Umsjónarmaður er Jóhannes Ólafsson.

None