A! gjörningahátíð hófst á Akureyri í fimmta sinn á fimmtudag og stendur fram á sunnudag. Hátt í 30 listamenn sýna tuttugu gjörninga víðsvegar um bæinn og Eyjafjörð.

„A! er vítamínssprauta fyrir samfélagið,“ segir Guðrún Þórsdóttir, verkefnastjóri gjörningahátíðarinnar. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Menningarfélags Akureyrar, Leikfélags Akureyrar, LÓKAL alþjóðlegrar leiklistarhátíðar, Reykjavík Dance Festival og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

„Þetta hófst þegar listamönnum á Lókal í Reykjavík var boðið að koma og sýna á Akureyri og úr varð A!. Hér er líka góð og löng saga gjörningalista, maður sér það svo skýrt til dæmis með þátttökunni,“ en um 2000 gestir hafa sótt hátíðina að jafnaði undanfarin ár.

Í ár taka 28 listamenn frá átta löndum þátt í hátíðinni, t.d. Snorri Ásmundsson, Haraldur Jónsson, Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Brasilíumaðurinn Tales Frey, og flytja fjölbreytta gjörninga og leikhústengd verk af öllum toga.

„Svo er það verkmenntaskólinn,“ bætir Guðrún við. „Nemendur koma hingað af listnámsbraut og fleiri deildum og hjálpa okkur við undirbúning á gjörningunum sem er rosalega nærandi.“

Fjallað var um A! gjörningahátíð í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.