Samkvæmt útgönguspám í Danmörku fær vinstriblokkin 90 þingsæti í þingkosningunum sem fram fóru í Danmörku í dag. Það er fjöldinn sem þarf til að tryggja meirihluta í þinginu. Þetta er niðurstaða útgönguspár sem Danske Radio birti klukkan sex, þegar kjörstöðum hafði verið lokað. Hægriblokkin fær 75 þingsæti.

Samkvæmt þessu verður Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna, næsti forsætisráðherra Danmerkur. Hún yrði um leið yngsti forsætisráðherrann í sögu Danmerkur. 

Danski þjóðarflokkurinn býður afhroð í kosningunum. Fylgi flokksins fer úr 21,1 prósenti í síðustu kosningum árið 2015 í 9,8 prósent nú. Samkvæmt því fækkar þingmönnum flokksins um rúmlega helming, verða átján í stað 37. 

Jafnaðarmenn njóta mest fylgis þrátt fyrir að tapa einu prósenti milli kosninga. Flokkurinn fær 25,3 prósent atkvæða og 45 þingsæti, samkvæmt útgönguspánni.

Nýi borgaraflokkurinn er eini nýi flokkurinn sem kemst á þing. Hann fær tvö prósent atkvæða og fjögur þingsæti. 

Venstre, flokkur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, bætir við sig fylgi milli kosninga, fer úr 19,5 prósentum í 20,9 prósent. Það þýðir að þingmönnum flokksins fjölgar um þrjá og verða 37. Þrátt fyrir það verður Rasmussen af forsætisráðherraembættinu.

179 sæti eru á Fólksþinginu í Kaupmannahöfn svo 90 sæti þarf til þess að mynda meirihluta á þingi. Á kjörtímabilinu sem er að líða hefur bláa blokkin svokallaða myndað ríkisstjórn með stuðningi danska þjóðaflokksins sem fékk afburðakosningu síðast árið 2015.

Uppfært 19:23 Þegar 12,6 prósent atkvæða hafa verið talin áætlar DR að vinstriblokkin hafi 88 þingsæti og hægriblokkin 73 atkvæði. Hvorugt dugar til meirihluta á þingi því 90 sæti þarf til þess.

Uppfært 19:45 Þegar 28,8 prósent atkvæða hafa verið talin er vinstriblokkin með 88 þingsæti og hægriblokkin með 73 atkvæði. Jafnaðarmenn fá samkvæmt þessu 48 þingsæti og Venstre 41 þingsæti. Danski þjóðarflokkurinn býður afhroð, missir 21 þingsæti frá síðustu kosningum og fær aðeins sextán núna. 

Uppfært 19:56 Vinstriblokkin er aftur komin með meirihluta á þingi miðað við stöðuna þegar 32,1 prósent atkvæða hefur verið talið. Hún fengi 90 þingsæti, þar af jafnaðarmenn 49. Flokkurinn Hörð stefna var komin inn þegar um 30 prósent atkvæða höfðu verið talin en datt aftur út þegar fleiri atkvæði bættust við. Sá flokkur hefur gert mjög út á andúð á múslimum.