Verktakar við Dettifossveg vinna nú í kappi við tímann því stefnt er að því að vegurinn verði uppbyggður og fær öllum bílum fyrir veturinn. Tilkoma nýs vegar tengir Öxarfjörð við Mývatnssveit og hefur mikil áhrif á samfélagið.

Löng barátta

Árið 2010 var tekinn í notkun nýr vegur vestan Jökulsár á Fjöllum, frá Mývatnsöræfum og að Dettifossi. Íbúar við Öxarfjörð hafa lengi barist fyrir því að seinni hluta leiðarinnar, niður í Kelduhverfi, verði lagaður en sú leið hefur lengi verið til vandræða. Sumarið 2018 hófst sú vinna þegar tæplega 14 kílómetra kafli var lagður í norður frá Dettifossi. Nú stendur til að klára veginn á þremur árum.

Í kappi við tímann

Áhersla er lögð á fjögurra kílómetra kafla upp að Vesturdal. Kaflinn sem um ræðir er niðurgrafinn malarvegur, sem er ófær stærstan hluta ársins. Verktakar stefna að því að byggja upp veginn fyrir veturinn en ekki verður hægt að leggja klæðningu fyrr en á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni ræðst framvinda verksins mikið til af veðri en verktakar vinna á svæðinu þar til vetur skellur á. Sex hundruð milljónir eru eyrnamerktar verkefninu í ár en 630 á því næsta. Tvö hundruð milljónir eru svo ætlaðar í frágang árið 2021. 

Spennandi tímar 

Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði sér fram á spennandi tíma á svæðinu. 

„Dettifossvegurinn mun náttúrulega örugglega fjölga mjög ferðamönnum sem fara hérna um Jökulságljúfrin að vestanverðu og það er svona viðbúið að álag aukist á staðina sem eru hérna megin,“ segir Guðmundur.

„Þetta er rosaleg áskorun fyrir okkur en fullt líka af tækifærum fyrir okkur að gera vel í stýringunni á ferðamönnum og gera vel fyrir ferðamennina og bæta upplifun þeirra sem koma hér.“