Sjávarútvegsráðherra segist ekki vera að draga úr vernd villtra laxastofna með nýrri reglugerð um fiskeldi. Hann segist þó skilja áhyggjur náttúruverndarsamtaka og hagsmunaaðila, og ætlar að kynna sér vel umsagnir þeirra.

Samkvæmt nýrri reglugerð um fiskeldi sem sjávarútvegsráðherra birti til umsagnar um miðjan desember er lagt til að bann við sjókvíaeldi í ákveðinni fjarlægð frá laxveiðiám verði fellt úr gildi. Frestur til að skila umsögnum um reglugerðina rann út á föstudaginn. Alls bárust 39 umsagnir. Margar þeirra eru neikvæðar, og þá sérstaklega um þann þátt að fella eigi brott ákvæðið um fjarlægðarmörkin. Náttúruverndarsamtök og hagsmunaaðilar hafa áhyggjur af því að breytingin geti aukið hættuna á því að villtur lax fái lús, og að hann smitist af hvers kyns sjúkdómum þegar hann syndir nærri kvíunum. 

„Ég skil þær mjög vel og í mínum huga eru engin áform uppi um að draga úr vernd villtra laxastofna. Það er ekki tilgangur minn með þessu regluverki, það er langur vegur frá,“ segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Hvers vegna er þá verið að fella þetta út?

„Það var mat ráðuneytisins að það væri ekki verið að auka áhættu með þessu. Og nú koma önnur sjónarmið fram frá hagsmunaaðilum, og eðlilegt og sjálfsagt að fara yfir þau.“

Önnur sjónarmið

Menn hafa áhyggjur af því að þetta valdi því að laxinn smitist frekar af lús og alls konar sjúkdómum, tekur þú undir þetta?

„Það kann vel að vera. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði, ég styðst bara við ráðgjöf sérfræðinga í því. Og þarna koma önnur sjónarmið fram. Og ég legg áherslu á að við þurfum einhverja daga og kannski vikur til þess að vinna úr þessum ágætu athugasemdum sem ber að þakka fyrir að fólk hefur fyrir að senda inn.“

Kemur til greina að hætta við að fella þessa reglu úr gildi?

„Ég ætla ekki að hafa nein orð um það fyrr en ég er búinn að kynna mér allar umsagnir og fá mat minna sérfræðinga á þær,“ segir Kristján Þór.