Jón Kristinsson, umhverfisarkitekt og frumkvöðull á sviði sjálfbærrar byggingalistar leggur til að Markarfljóti verði veitt inn í Landeyjahöfn til að gera hana sjálfhreinsandi. Vegagerðin vinnur að endurbótum á höfninni sem eiga að gera það kleift að dæla sandi úr henni úr landi.
Minni sandur í kerfinu
Landeyjahöfn var opnuð í ágúst 2010 og þá um vorið gaus Eyjafjallajökull. Flóðið sem kom frá því gosi flutti með sér geysilegt magn af sandi og myndaðist sandtangi út við Markarfljótsósa. Sigurður Sigurðarsson, er strandverkfræðingur hjá Vegagerðinni og hefur starfað við það í meir en þrjá áratugi.
„Fyrstu árin eftir byggingu hafnarinnar að þá eru sandvandamálin miklu meiri en þau eru í dag. Núna eru sandbunkarnir sitt hvoru megin við höfnina þeir eru nær landi. Við orðum það þannig að það er töluvert minni sandur í kerfinu í dag heldur en var fyrstu árin.“
Þrátt fyrir það er sandur ennþá vandamál hafnarinnar því skilyrði fyrir dæluskip hafa verið mjög slæm. Sigurður segir að vitað hafi verið að sandsöfnunun yrði við mynni hafnarinnar.
„Við vissum að hún yrði einhver en hún hefur orðið mun meiri heldur en okkar erlendu ráðgjafar spáðu fyrir um. Og sérstaklega hefur þessi gluggi sem er opinn til dýpkana hann er mun styttri en menn höfðu gert sér grein fyrir“
Allir Íslendingar sérfræðingar í Landeyjahöfn
Suðurströnd Íslands er með útsettari strandsvæðum í heiminum
„Þegar haföldur koma upp að ströndinni þá hækka þær það er kallað að þær hryggist þegar þær kenna grunns og verða hærri þegar þær koma að stöndinni. Þetta sjólag er einkennandi fyrir þær öldur sem eru í hafnarmynninu.“
Á þessum næstum áratug síðan höfnin var opnuð hafa fjölmargar hugmyndir um lausn á vanda Landeyjahafnar verið skoðaðar.
„Það er búið að skoða alskonar lausnir alveg fjöldan allan af mögulegum lausnum. Það hafa verið fengnir sérfræðingar innlendir og erlendir og Íslendingar eru um það bil allir sérfræðingar í Landeyjahöfn þannig að ýmsar skoðanir hafa komið fram.“
Sjávarþjóðgarður úr Markarfljótslóni
Jón Kristinsson umhverfisarkitekt sem oft hefur verið nefndur faðir sjálfbærs arkitektúrs fór fyrir um tveimur árum til Vestmannaeyja með Herjólfi og fékk eftir það hugmynd um lausn á vanda hafnarinnar. Hún snerist um að koma upp Markarfljótslóni og hleypa vatni um flóðgáttir í gegnum höfnina.
Hann bar hugmyndina undir nokkra sérfræðinga meðal annars ræddi hann við Jónas Elíasson, prófessor sem lagði til settar yrðu flóðgáttir á lónið.
„Þannig að við létum það bara hreinsa sig á fjöru. Þá getur þú fengið svo mikinn straumhraða til þess að skola sandinum í burtu að þá erum við eiginlega búin að fá höf sem er opin allt árið án þess að ------ það þarf bara að fjarfesta í þessu.“
„Við ættum að gera þetta og líka hafa þetta stærra þannig að við gætum búið til einhverskonar sjávarþjóðgarð úr Markarfljótslóni með því að hafa þar eyjur sem er búið að græða upp í sandinum þarna. Nota sandgræðsluna nota hana tila að búa til sjávarþjóðgarð sem er með ferskt vatn úr Markarfljóti efst og saltvatn niðri. Tvisvar sinnum á dag tæmist lónið að miklu leyti en þú færð óhemjumikið dýralíf. Þú færð alskysn orma og fugla og getur líka komið upp fiskeldi þarna. Þetta getur orðið óhemju fallegt og arðvænt fyrirtæki að gera þetta“
Þarf að rannsaka hugmyndina betur
Hugmynd Jóns hefur komið inn á borð til Sigurðar hjá Vegagerðinni. Hann segir á hún sé áhugaverð.
„En það þarf langar rannsóknir til að segja til um hvernig þetta virkar og hvaða áhrif þetta hefur á sandflutninga við ströndina. Þetta er líka töluvert dýrt mannvirki. Ég held við höfum slegið á það að þetta er dýrara held ég heldur en höfnin var á sínum tíma. Þannig að það er ýmslegt óleyst í þessu við vitum ekki hvaða áhrif þetta hefur. Þannig að það er staðan. En þetta er vissulega skemmtileg hugmynd og áhugaverð.“
Leysa á vanda hafnarinnar með dælum úr landi
Síðastliðið haust var samið við Ístak um endurbætur á höfninn. Byggja á tunnur á enda brimvarnargaðanna, grjótvörn á garðsendum, byggingu vegar út vesturgarð og stækkun innri hafnarinnar.
„Og það er það sem stefnt er að í dag það eru þessar svokölluðu tunnur. Það er að gera veg fyrir stóra krana út á endan á brimvarnargörðunum þannig að þeir geti slakað niður dælu sem dælir upp sandi af sjávarbotninum.“
Með því móti þarf ekki skip til að dæla upp sandinum heldur er hægt að gera það úr landi.
„Vissulega eru ákveðnar veðurfarstakmarkanir líka við þessa dælu en þær eru miklu færri heldur en við skip á sjó eða fljótandi skip.“
Einhverjar tafir verða á verklokum
Verkið er þegar hafið og er grjótvinnslunni um það bil lokið.
„Það er komin stór grafa til landsins sem kemur til með að reka stálbita í þessar tunnur. Þessa dagana er verið að hefja rekstur á innri tunnu sem er við innri garðinn í innri höfninni. Þannig að það er fara af stað. Síðan er að byrja undirbúningur að lagningu vegar út á enda brimvarnargarðanna.“
Áætluð verklok eru í haust en einhverjar tafir verða á þeim.
„Í þessu verki er ekki sá hluti að steypa þennan veg sem er endanlega lausn. Þannig að sú lausn kemur væntanlega ekki fyrr en á næsta ári. Þannig að það næsta vetur verður ekki hægt að keyra óhindrað með krana út á enda brimvarnargarðana.“
„Hverju breytir þetta , verður þetta til þess að hægt verður að hafa höfnina opna lengur jafnvel allt árið? Við vonumst til þess að hún verðir opin um það bil allt árið. Það geta orðið einhverjar frátafir og styttri frátafir en þær eiga að vera mun minni heldur en í dag.“