Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, segir að það væri heppilegt ef Sjálfstæðisflokkurinn tæki þátt í stjórnarmyndun með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Hún ræddi stjórnarmyndunarviðræður og möguleika í stjórnarmyndunum í Morgunútvarpinu á Rás 2 í dag.
Lilja sagði að pirringur vegna ágreinings um Evrópumál hafi komið í ljós á fyrsta degi formlegra stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Hún sagði mikilvægt að leggja áherslu á uppbyggingu innviða frekar en Evrópusambandsumsókn sem ekki væri sátt um.
Þrátt fyrir að formlegar viðræður séu hafnar stinga menn úr öðrum flokkum saman nefjum. „Við höfum til að mynda verið að ræða við VG og skoða hvort það væru einhverjir samstarfsfletir hjá okkur. Það vill nú bara þannig til að það er margt mjög spennandi og framsækið þegar þessir flokkar fara til að mynda að tala saman. Það er margt sem sameinar okkur,“ sagði Lilja og kvaðst vilja fá Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarmyndun með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. „Ég myndi vilja sjá svona stjórn og hef alltaf talið. Ég tel að það sé orðið tímabært að það sé nokkuð breið stjórn, að það verði mynduð nokkuð breið stjórn á Íslandi. Vegna þess að efnahagslega held ég að við sjáum öll að okkur hefur gengið mjög vel á síðustu árum.“
Sálfræðilega væri hins vegar nokkur vinna óunnin. Hún lagði áherslu á að byggja upp stöðugleikasjóð til að sporna gegn hagsveiflum. Í hann mætti leggja hækkuð veiðigjöld og arðgreiðslur orkufyrirtækja.