Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir það blasa við að ósamræmi milli frídaga atvinnulífsins og skólakerfisins skapi vanda. Með skipulagsbreytingu geti foreldrar minnkað fjarveruþörf sína frá vinnu um tíu daga á ári. Hvert foreldri eigi almennt um 24 frídaga á ári en frídagar grunnskólabarna séu um 70 til 80.
Hildur, Árni Helgason lögfræðingur, Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi Pírata, ræddu borgarmál og fleira í Silfrinu.
Megi ekki ganga of langt að kröfum atvinnulífsins
Sigurborg Ósk sagði að hægt væri að samræma ákveðna hluti betur. Hins vegar verði að passa að vega ekki að sjálfstæði skólanna og þeirra valdi til að stýra sínu faglega starfi og skipuleggja sína vinnu sjálfir. Hún segir að ekki megi ganga of langt að kröfum atvinnulífsins í stað barnanna.
„Skólakerfið er skipulagt á forsendum nemenda, ekki atvinnulífsins. Það skiptir rosalega miklu máli að við séum að gera færri vinnustundir og fleiri gæðastundir fyrir fjölskylduna.“
Allt haldist í hendur
Hildur sagði fækkun frídaga ekki á forsendum atvinnulífsins, heldur sé um einfalt skipulagsmál að ræða. Fólk vilji öflugar grunnstoðir, öflugt menntakerfi, velferðarkerfi og heilbrigðiskerfi. Oft vilji gleymast í umræðunni að vinnandi fólk úr atvinnulífinu fjármagni þessi kerfi. Án öflugs atvinnulífs sé ekki hægt að standa undir þessum kerfum.
„Ég er þeirrar skoðunar að ef þú ætlar að standa með menntakerfinu, velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu, þá verðurðu um leið að standa með atvinnulífinu. Þetta helst allt í hendur.“
Þurfi að lengja skólaárið
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, vill að skólaárið verði lengt hér á landi og verði svipað langt og skólaár Norðurlandanna. Með því verði skólakerfið styrkt. Alþjóðlegar kannanir sýni að skólakerfið hérlendis sé ekki nægilega öflugt og geti orðið öflugra en það er.
Hildur benti á að Samtök atvinnulífsins hafi nýlega lagt til að grunnskóli verði styttur í níu ár og skólaárið lengt í staðinn. Reynslan sýni að langt sumarfrí grunnskólabarna dragi úr námsárangri og bitni verst á börnum fátækra og innflytjenda.