Þjóðkirkjan er mjög mikilvæg stofnun í samfélaginu. Þetta segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Því er stefnt að því að endurgreiða henni 660 milljóna umframniðurskurð sem hún varð fyrir eftir hrun.

Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins hefur lagt til að þjóðkirkjan fái endurgreiddan þann niðurskurð sem hún tók á sig umfram aðrar stofnanir eftir hrun. Sú upphæð nemur um 660 milljónum króna. Forsætisráðherra sagði í fréttum á laugardag, að kirkjan hafi sýnt mikið umburðarlyndi og fórnfýsi á undanförnum árum. Sjálfsagt sé að hún njóti þess. Málið er nú á borði Ólafar Nordal innanríkisráðherra, sem segir stefnt að því að endurgreiða kirkjunni féð.

 „Já, á grundvelli þessa starfshóps er það lagt til af hans hálfu að þessi umframskerðing verði færð til baka. Ríkisstjórnin hefur rætt þetta stuttlega, hún gerði það síðasta haust þar sem fram kemur skýr vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar að mæta þörfum kirkjunnar. Ég vil hins vegar taka það fram að kirkjan hefur orðið fyrir miklum niðurskurði á undanförnum árum. Það er eitthvað sem allar stofnanir þjóðarinnar hafa lent í. Og ekki síður þær stofnanir sem heyra undir þetta ráðuneyti. En ég vil taka heilshugar undir það með forsætisráðherra að það er mikilvægt að líta sérstaklega til kirkjunnar á þessum tímapunkti,“ segir Ólöf.

Og stefnið þið að því að endurgreiða þetta fjármagn?

„Nú er það þannig að tillögur starfshópsins liggja fyrir. Það er ekki búið að klára samkomulag á grundvelli starfshópsins eða þeirra tillagna sem þar koma fram, á milli ríkis og kirkju. Og ég tel mjög mikilvægt að menn fari í gegnum það. Og þess vegna hef ég beðið Sigurð Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, að koma okkur til ráðgjafar í þessu máli, til að líta bæði á þessi fjárhagslegu samskipti ríkis og kirkju á grundvelli þessarar skýrslu. Og einnig að líta til sóknargjaldanna í heild sinni og hvernig með þau skuli fara. Og ég hef óskað eftir því við Sigurð Þórðarson að hann færi rækilega yfir þetta, en þó hratt og vel, og ég á von á því að hann muni skila okkur sinni niðurstöðu núna í janúar og þá mun ráðuneytið að sjálfsögðu halda áfram með þetta mál og leita lausna á því.“

Lítur jákvæðum augum til kirkjunnar

Sá möguleiki hefur verið nefndur að endurgreiða þetta á fjörum árum, kemur það til greina?

„Það var tillaga starfshópsins, að þetta yrði gert á fjórum árum. Og það er eitt af því sem er verið að skoða í þessu samhengi.“

Finnst þér það koma til greina?

„Já það kemur vel til greina.“

Nú hafa fjölmargar stofnanir þurft að taka á sig niðurskurð á undanförnum árum, finnst þér að þær ættu að fá sambærilegar endurgreiðslur?

„Eins og ég sagði í upphafi þá hefur orðið hér mikill niðurskurður. Og það þurfti að skera verulega niður út af þessum efnahagslegu þrengingum. Og þar sem ég er í innanríkisráðuneytinu get ég bent á bent á dómstóla, ákæruvald og slíka þætti. Mikilvægar stoðir í samfélaginu sem hafa þurft að þola mikinn niðurskurð. En ég held að við séum að komast í færi með það smátt og smátt með bættri afkomu ríkisins að geta farið að líta aftur og sjá hvar hægt er að bæta í, hvar þörfin er mest og svo framvegis, og kirkjan er að sjálfsögðu mikill hluti af því mengi.“

Er þjóðkirkjan forgangsatriði?

„Hún er mjög mikilvæg stofnun í samfélaginu. Það er enginn vafi á því. Og ég lít mjög jákvæðum augum til kirkjunnar.“

Kirkjan á fjölmargar eignir, bæði jarðir og húsakynni, kemur til greina að hún selji eitthvað af þessum eignum?

„Það er alveg sérstakt mál og ég ætla ekki að tjá mig um það. Við erum fyrst og fremst að líta til þessarar fjárhagslegu stöðu milli ríkis og kirkju hvað þetta varðar.“

Er það eðlilegt að ríkið hafi milligöngu um sóknargjöldin?

„Já. Ríkið er að innheimta sóknargjöldin fyrir hönd kirkjunnar. Sóknargjöldin eru líka hluti af tekjum ríkisins og það er eitt af því sem Sigurður Þórðarson og við hér í ráðuneytinu í vetur munum skoða, hvernig best er að haga því og koma því fyrir.“

En í öllu falli, þá er stefnt að því að endurgreiða þessa fjárhæð?

„Það er stefnt að því að fara rækilega yfir þetta mál. Og eins og ég sagði áðan er horft mjög jákvæðum augum til kirkjunnar hér.“

En þú vilt ekki svara því af eða á, hvort þessi fjárhæð verði endurgreidd?

“Ég ítreka það sem ég sagði að við erum búin að setja þessa vinnu í forgang í ráðuneytinu. Og við það verður staðið,“ segir Ólöf Nordal.

johann@ruv.is