Ólöglegt er fyrir börn undir 18 ára að nota rafrettur, en notkun þeirra er engu að síður útbreidd á meðal ungs fólks. 15% barna í 10. bekk hafa notað rafrettur og yfir 23% framhaldsskólanema veipa, samanborið við tæp tíu prósent fyrir tveimur árum.
Alma D. Möller, landlæknir, sagði í Kastljósi í kvöld að það væri nánast komið í tísku hjá ungu fólki að nota rafrettur. Það sé einnig auðveldara fyrir ungt fólk að veipa heldur en að byrja að reykja, þar sem hægt er að fá margar mismunandi tegundir af bragðefnum fyrir rafrettur. Þá benda rannsóknir til að foreldrar líta rafrettur ekki jafn alvarlegum augum og sígarettur.
Alma sagði að ekki væri rétt að banna rafrettur. Þá þyrfti fyrst að byrja á því að banna sígarettur og annað tóbak. Stíga þyrfti þó fast til jarðar þegar kemur að notkun barna og ungmenna.
„Það eru vísbendingar um að börn sem nota rafrettur byrji frekar að reykja. Það eru vísbendingar um að nikótín geti seinkað þroska framheilans, sem sér um að við tökum rökréttar ákvarðanir og stýrir tilfinningum,“ sagði Alma. Hún vill herða eftirlit með rafrettum.
„Ég held að rétt leið núna væri að banna bragðefni og umbúðir sem höfða til barna og ungmenna. Það er stoð í lögunum fyrir því,“ sagði Alma, en hún hefur þegar lagt þetta til við heilbrigðisráðherra.
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði að þrátt fyrir að þeim sem reyki tóbak hafi fækkað mikið þá hafi stjórnvöld sofnað á verðinum varðandi rafretturnar. Faraldur væri ekki handan við hornið, heldur sé hann skollinn á.