Kona sem neydd var til að gefa þvagsýni vegna gruns um ölvunarakstur hyggst höfða skaðabótamál á hendur ríkissjóði. Hún upplifði sýnatökuna eins og nauðgun og hefur átt við andlega erfiðleika að stríða síðan.
Málið kom upp árið 2007. Konan var að keyra til Reykjavíkur frá Hvolsvelli. Bíll hennar fór útaf veginum í mikilli hálku. Hún heldur því fram að fólk sem kom henni til aðstoðar hafi gefið sér áfengi og segist saklaus af ölvunarakstri. Jón Egilsson, lögmaður konunnar, segir að sérfræðingur sem kom fyrir dóminn hafi staðfest að áfengismagnið sem fannst í blóði hennar gæti hafa komið til eftir að akstri lauk. Lögreglan kom á staðinn nokkru síðar. Hann segir hana fríviljuga hafa gefið blóð, hún hafi hins vegar hvorki getað né viljað gefa þvag. Hún hafi talið það ómanneskjulega meðferð og vanvirðandi að vera tekin af hópi manna sem hafi farið með hana niður í fangaklefa þar sem hún hafi verið dregi úr buxunum og nærbuxum og klofið á henni glennt í sundur áður en þvagleggurinn hafi verið settur upp.
Jón segir að konan geti ekki gleymt þessu atviki. Hún hafi bæði þurft á aðstoð sálfræðings og geðlæknis að halda síðan. Geðlæknirinn lýsi því þannig að það sé eins og hún hafi upplifað þetta eins og margar konur upplifi nauðgun. Það hafi verið henni gríðarlegt áfall að vera líka sakfelld fyrir að berjast á móti þessari aðgerð. Jón segir þetta hafa verið nálægt því að hafa verið pynting.
Umboðsmaður Alþingis hefur tekið undir sjónarmið konunnar að þarna hafi verið gengið of langt.