Hvergi í Evrópu greinast hlutfallslega fleiri tilfelli af sárasótt en á Íslandi. Klamydía er líka með því algengasta hér sem gerist. Sóttvarnarlæknir vill að smokkum verði dreift í grunnskólum, en segir marga foreldra mótfallna því. 

Evrópumet í sárasótt

Samkvæmt nýrri skýrslu Smitsjúkdómavarna Evrópu slær Ísland enn eitt metið. Hér greinast hlutfallslega flest tilfelli í Evrópu af kynsjúkdómnum sárasótt, 15,4 á hverja hundrað þúsund íbúa. Ef ekkert er að gert getur sárasótt valdið hjarta-, heila- og taugasjúkdómum.  

Mismörg sárasóttartilfelli greinast á ári hverju. Tiltölulega fá greindust 2011 og 2013, en síðan varð gífurleg fjölgun 2017 þegar 52 greindust með sjúkdóminn og þeir voru 30 í fyrra. 

„Menn og konur eru ekki að gæta að sér í kynlífi. Kynlíf er þá orðið frjálslegra og menn eru ekki að nota smokkinn. Og það er raun og veru eina skýringin á þessu. Ég vek athygli á því að aðrir kynsjúkdómar hafa fjölgað sér á Íslandi líka, eins og lekandinn. Og tíðni klamydíu er há hér, hæsta sennilega í Evrópu,” segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. 

Klamydían algengust hjá ungu fólki

Klamydíutilfellum hefur fækkað lítillega undanfarinn áratug, en 2010 greindust um 2.300 tilfelli og þau voru um 1.850 í fyrra. 

„Klamydían, það er ungt fólk á aldrinum 18 til 25 ára, af báðum kynjum. Sárasótt hefur aðallega verið hjá karlmönnum, samkynheigðum karlmönnum hér eins og annarsstaðar, og það er rétt að vekja athygli á því að aukningin hér hefur fyrst og fremst skýrst af flutningi fólks til landsins, útlendinga. Sem hafa hækkað þessar tölur,” segir Þórólfur.

Margir foreldrar andsnúnir smokkum í grunnskólum

Hann vill að smokkum verði dreift í grunnskólum, eins og framhaldsskólum. „Það eru margir andsnúnir því, margir foreldrar. En þetta þarf að ræða mjög vel og við þurfum að gera allt sem við getum til þess að stoppa útbreiðslu þessara sjúkdóma, sem geta verið mjög alvarlegir,” segir hann. „Fólk getur gengið með klamydíu einkennalítið eða einkennalaust. En aðgengi hér að greiningu og meðferð er mjög góð. Það hefur verið mikið rætt um það að færa skimanir, rannsóknir og greiningu út í samfélagið, út á meðal áhættuhópa. Það eru umræður í gangi um að gera það, en það er einn þáttur í að reyna að finna sem flesta á fyrstu stigum þannig að þeir fari ekki að smita út frá sér.”