„Ég heyrði af einu slysi. Þær voru tvær á vespu. Ein var að reiða. Þær ætluðu að stoppa vespuna, misstu vespuna undan sér og önnur slasaðist það illa að hún er mjög illa farin á fæti. Hún er enn að glíma við þetta. Þetta gerðist í fyrra,“ segir Guðrún Ingibjörg Ámundadóttir, snigill nr. 1706. Hún ásamt fleiri sniglum veittu unglingum í Hörðuvallaskóla fræðslu um öryggisatriði þegar setið er á vespu. Guðrún vill að skylt verði að taka próf á létt bifhjól líkt og áður tíðkaðist.

Fæstir unglingar eru með hjálm þegar þeir eru á vespum og mjög margir hafa setið aftan á hjá öðrum unglingum. Hvort tveggja er ólöglegt. Bifhjólasamtökin Sniglarnir reyndu í dag að fá unglinga til að bæta ráð sitt.

Í blíðunni á suðvesturhorninu sjást æ fleiri vespur eða létt bifhjól á götunum. Sniglarnir hafa áhyggjur af því að unglingar fari ekki að umferðarlögum þegar þeir sitja á vespum. Þeir ræddu við nemendur í Hörðuvallaskóla.

Guðrún brýnir fyrir öllum að vera með hjálm og í hlífðargalla. „Félagi okkar var keyrður niður á Sæbrautinni við Sólfarið,“ segir Guðrún. Hann var í leðurgalla og með mótórhjólahjálm.

Ef hann hefði ekki verið svona vel gallaður og með hjálm?

„Þá hefði hann verið mjög illa farinn á líkamanum og sennilega lítið eftir af andlitinu á honum,“ segir Guðrún.

Lögum samkvæmt verða þeir sem aka vespum að vera orðnir þrettán ára. Ökumenn yngri en tvítugt mega ekki vera með farþega. Skylt er að nota bifhjólahjálm og viðurkenndan hlífðarfatnað. Ekki má aka hraðar en á tuttugu og fimm kílómetra hraða. Með lítilli fyrirhöfn er hægt að taka burtu innsigli úr vespunum þannig að þær komist mun hraðar.

Flestir unglingarnir sem fréttastofa ræddi við höfum verið á vespu en margir höfuð verið án hjálms. Þá var það algengt að þau höfðu verið farþegar á vespum. 

 

 

Guðrún vill að fólki verði gert skylt að taka próf á létt bifhjól til þess að mega að aka vespum. Vilberg Kristinn Kjartansson, varaformaður Sniglanna, segir mikilvægt að þeir sem aka vespum átti sig á því að þeir séu ábyrgir fyrir öryggi farþega.