Ísleifur B. Þórhallsson segir að fluttir hafi verið inn 50 gámar af græjum fyrir tónleika Eds Sheeran á Laugardalsvellinum um helgina. „Sem er tífalt meira en þurfti á tónleika Justins Timberlakes og fimmfalt meira en Justins Biebers.“

Uppsetning á sviði og öðru fyrir tónleika rauðbirkna söngvaskáldsins er í fullum gangi á Laugardalsvelli. „Við hófum framkvæmdir síðastliðinn mánudag,“ segir Ísleifur, sem er tónleikahaldari hjá Senu Live. „Þetta er náttúrulega alveg nýtt level fyrir íslenskt tónleikahald, en gengur allt vel.“ Sviðið var sérhannað fyrir stærstu tónleika Sheerans, 60-70 þúsund manns, og er meira en fimmtíu metra langt. „Bara sviðið er svona 200 tonn og 700 fermetrar,“ segir Ísleifur. „Það er bara flogið hingað með menn til að setja þetta upp, það eru hátt í 200 útlendingar að koma til landsins, hellingur af Íslendingum og útlendingum að vinna uppi á velli að smíða.“

Tónleikaferð Sheerans hefur að sögn Ísleifs gengið geysivel. „Hann er núna ekki einn af stærstu í heimi, heldur bara sá allra stærsti alveg sama hvaða mælikvarði er notaður. Hann er efstur á Youtube og Spotify, hann selur mest af tónleikamiðum, og þessi túr sem er núna að koma til Íslands er orðinn stærsti túr allra tíma. Þannig að stærsta stjarna samtímans er í Laugardalnum á laugardaginn.“ Ísleifur segir að þetta sé löng saga og mörg skref þurfi til þess að hægt sé að halda svo stóra tónleika sem þessa á Íslandi. „Þegar við gerðum Eagles var það ákveðinn vendipunktur, og svo annar þegar við gerðum Timberlake og svo Bieber.“ Sena Live sé að vinna með einu stærsta tónleikafyrirtæki heimsins sem sjái líka um tónleikaferðir Biebers, og viðræður hafi í raun hafist fljótlega eftir að þá tónleika þar sem þeir gengu eins vel og raun ber vitni. „Ég held það sé bara vegna þess að Ed Sheeran hefur áhuga á Íslandi og vildi koma. Þess vegna gekk samtalið vel frá fyrsta degi.“

Ísleifur segist ekki mega gefa upp hvenær Sheeran kemur eða fer en hann verði hér í nokkra daga. „Við vorum baksviðs á tvennum tónleikum í Lissabon og hittum hann. Þetta er bara rosalega vinalegur gaur, labbar um eins og hver annar og spjallar við hvern sem er. Og hann var alveg rosalega spenntur þegar hann heyrði við værum frá Íslandi, sagði að hann hlakkaði mest til að koma til Íslands af öllum löndunum á túrnum.“ Eins og frægt er orðið seldist upp á tónleikana á methraða, 30 þúsund miðar á tæpum tveimur tímum, og þess vegna var bætt við aukatónleikum á sunnudeginum. „Hann vill leyfa sem flestum að sjá sig, er með aðra nálgun en margir sem vilja bara halda eina tónleika á hverjum stað og hámarka miðaverðið. En hann vill halda miðaverði niðri, engar forsölur eða VIP-miða, allir hafi jafnan aðgang, og er viljugur að halda fleiri tónleika í hverri borg.“

Rætt var við Ísleif B. Þórhallsson hjá Senu Live í Morgunútvarpinu á Rás 2.