Verkfræðistofan Efla vinnur nú að því að kanna hvort raunhæft er að vetnisvæða smábátaflotann á Vestfjörðum og flutningabíla sem flytja fiskinn. Til greina kemur að reisa vetnisframleiðslustöð við Mjólkárvirkjun og dreifa vetninu til sjávarplássanna.

Raunhæf hugmynd

Hugmyndinni var varpað fram í verkefni sem tveir verkfræðinemar unnu fyrir Eflu í fyrra, þau Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson og Sandra Karlsdóttir Andreasen. Það bar yfirskriftina Vetnisvæðing hafnarsamfélags þar sem litið var til þéttbýlisstaðanna á norðanverðum Vestfjörðum og þó sérstaklega Bolungarvíkur. Hugmyndin er í hnotskurn að smábátaflotinn og flutningabílar sem flytja fiskinn verði knúnir áfram með vetni sem yrði framleitt á Vestfjörðum.

„Hún er svo sannarlega raunhæf því öll tæknin til þess að bæði að framleiða vetni á bryggjukantinum eða á miðlægum stað við virkjun eins og Mjólkárvirkjun er fyrir hendi. Það er ekkert óljóst með það," segir Hafsteinn Helgason, verkefnisstjóri þróunarsviðs Eflu.

Eyða mikill olíu

Það er brennt talsvert af olíu frá því að fiskurinn eru veiddur og þar til hann fer í vinnslu. Stærri smábátar nota rúmlega 300 lítra af olíu í einum túr og flutningabíll sem flytur fiskinn frá Vestfjörðum á höfuðborgarsvæðið rúma 200 lítra.

„Í eðli sínu verða bátarnir rafdrifnir og flutningabílarnir líka því vetnið fer í að framleiða raforku um borð í þessum flutningafaratækjum."

Til að framleiða vetni þarf rafmagn. Það yrði annaðhvort gert á staðnum eða komið yrði upp vetnisframleiðslustöð í nágrenni við Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Hafsteinn segir að með því þyrfti ekki að greiða fyrir flutningskostnað á rafmagni og þar með yrði framleiðslukostnaður lægri.

„ Þannig séð gæti  verið hagkvæmt að framleiða vetnið fyrir Vestfirði í Mjólká og dreifa því með flutningabílum á hafnirnar. Hinn möguleikinn er að framleiða vetnið við viðkomandi höfn," segir Hafsteinn.

Lækkar eldsneytiskostnað

Reiknað hefur verið út að 3,5 megavött þyrfti til að framleiða vetni fyrir norðanverða Vestfirði. Verkefnið Vetnisvæðing hafnarsamfélags var unnið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Efla vinnur nú að framhaldsrannsóknum sem lúta að því meðal annars hvort sé hagkvæmara að framleiða vetnið á staðnum eða koma upp miðlægri framleiðslu. Þetta hljómar vel en er raunhæft að skipt verði um vélar í bátunum? Hafsteinn segir að vissulega sé hægt að skipta um þær.

„Þetta gerist eiginlega ekki þannig. Þetta mun gerast í tengsl við nýja bíla og nýja báta. Þetta gerist hægt og hægt en það er mjög mikilvægt að vinna nauðsynlega undirbúnings- og rannsóknarvinnu til að komast að því hvernig eldsneytið verður best flutt og framleitt og hvernig við getum tryggt það að Ísland verði samkeppnishæft  í sambandi við verð. Þá spyr maður sig að því hvort smábátaeigendur og eigendur flutningabíla ættu  ekki að vera áhugasamir um það að lækka eldsneytiskostnaðinn frá því sem nú er um helming eða jafnvel meira. Það hlýtur að vera áhugavert.

Hafsteinn segir að næg orka sé fyrir hendi á Vestfjörðum og nú séu að bætast við vindorkugarðar í Dölunum og víðar.

„Það sem er kannski veikast er dreifikerfi raforkunnar innan Vestfjarða. Þar gæti verið veikur hlekkur. Það er mál sem verður að kanna betur og það er eitt af því sem við erum undirbúa okkur að skoða með Orkubúinu,"

Nýtist fiskeldi

Ef reist yrði vetnisframleiðslustöð við Mjólkárvirkjun eru ýmsar leiðir til að flytja vetnið milli staða, til dæmis blanda því saman við olíu. Á áfangastað er vetnið svo skilið frá henni og hún notuð aftur til að flytja næsta farm. Einnig eru hugmyndir um að bátarnir yrðu tvinnbátar. Hlaðnir í höfn, stímt á hreinu rafmagni og svo tæki vetnið við. Það er líka verið að tala um að nýta súrefnið sem er hliðarafurð vetnisframleiðslunnar, til að koma upp fiskeldi á landi.

„Fiskeldi á landi þarf súrefni, seiðaeldi þarf súrefni og ef við myndum framleiða vetni á Vestfjörðum myndi líka vera framleitt súrefni á þeim stað. Það súrefni er af háum gæðum.  Með uppbyggingu á Vestfjörðum í tengslum við fiskeldi þá verður þörf fyrir súrefni. Þannig að þá má segja að súrefni geti verið þakklát aukaafurð fyrir annan iðnað,"

Mál sem nauðsynlegt er að skoða

En er samfélagið fyrir vestan tilbúið að takast á við orkuskipti af þessu tagi og er nauðsynlegt að fara út í þetta? Efla ætlar að halda verkefninu gangandi þó svo að það hafi ekki fengið styrk frá Rannís sem sótt var um.

„Við teljum samt mikilvægt að þetta verði kannað og við teljum hjá Eflu samfélagslega skyldu okkar að sinna nauðsynlegum undirbúningsverkum varðandi þessi orkuskipti. Þetta er liður í því. Vetnið er framtíðareldsneytið fyrir stærri flutningatæki og báta og það verður að hefja skoðun á þessu. Við höfum verið að ræða við Orkubú Vestfjarða að vera með okkur í þessari vegferð vegna þess að þetta er bara gott fyrir Vestfirði til framtíðar litið," segir Hafsteinn.