Þau kalla sig Lucky 3 og eru listahópur sem vill taka sér stöðu í hvítmáluðu galleríi Kling og Bang í Marshall-húsinu úti á Granda í Reykjavík. Þau heita Dýrfinna Benita Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo og eru öll af filippseysku bergi brotin. Sýninguna kalla þau Lucky me?

Sýninguna tileinka þau í Lucky 3 nostalgískri túlkun á filippseyskri menningu. Þau hafa öll ólíkan bakgrunn en eiga það sameiginlegt að hafa alist upp við fátækt og fengið að kenna á rasisma vegna uppruna síns. Þau vilja nota forréttindi sín, það að geta tjáð sig í gegnum listina, til þess að varpa ljósi á stöðu filippseyskra innflytjenda hér á landi.

Þau takast á við viðfangsefnið með mismunandi miðlum, þar á meðal gjörningum, myndböndum, fatahönnun, málverkum, skúlptúrum, hljóði og fleira og vilja þannig upphefja filippseyska menningu og fagna veru filippseyskra innflytjenda hér á landi. Von þeirra stendur til að áhorfandanum finnst sýningin lærdómsrík, að hann vilji svipast um í raunveruleika filippseyskra íbúa á Íslandi. 

Viðtalið má heyra hér að ofan en þetta hafa þau Dýrfinna, Darren og Melanie meðal annars að segja um stöðu sína og verk:

„Við búum á Íslandi og það eru mikil forréttindi og við fáum að tjá okkur. Þess vegna köllum við okkur Lucky 3. Við erum líka bara að taka okkur pláss og segja söguna okkar í þessu hvíta rými. Það var ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að sjá foreldra okkar og fjölskyldur koma á svona stað og finnast þau eiga heima hér. Þau sjá sjálf sig í öllu og eru ótrúlega stolt af því að vera þau.“ – Dýrfinna.

„Við erum heppin að hafa flutt hingað með foreldrum okkar og foreldrar okkar hafa unnið hart að því að við fengjum betra líf og möguleika í lífinu. Á sama tíma er titillinn á sýningunni tilvísun í Lucky me núðlurnar sem eru algengar á Filippseyjum.“ – Darren.

„Ég fór síðast til Filippseyja í febrúar en það að koma þangað núna fyrir okkur er í raun stór partur af þessari sýningu. Við erum á skrítnum stað, milli heima, bæði á Íslandi og á Filippseyjum. Við erum íslensk en við lítum út svona og þú ert alltaf „an outsider.“ En við erum búin að búa svo lengi hér að þegar við förum út þá erum við í raun túristar. Þannig að hvar erum við þá í þessu samhengi? Við erum að nýta okkur fagurfræði fátæktar eins og hún birtist í þriðja heims löndum og vonum að hún fái gesti til að hugsa.“ – Melanie. 

Lucky me?, sýning Dýrfinnu, Melanie og Darrens er opin í Kling & Bang miðvikudaga til sunnudaga frá kl.12-18 (fimmtudaga til 21). Dýrfinnu er þakkað sérstaklega fyrir sönginn í karókí.