Til stendur að öll börn hælisleitenda í þriðja til tíunda bekk í Reykjavík sæki nám í Vogaskóla. Deildarstjóri við skólann segir hugmyndina í algjörri andstöðu við íslenskt skólastarf, og líklega lögbrot. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir tilganginn að veita börnunum þann stuðning og það skjól sem þau þurfa.
Hér á landi búa fjölmörg börn innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í skýrslu starfshóps um móttöku og aðlögun þeirra í skóla- og frístundastarfi frá því í fyrra er meðal annars lagt til að stofnuð verði stoðdeild við einn grunnskóla í Reykjavík, þar sem þróað verði starf fyrir börn í 3. til 10. bekk sem þurfa sértækan stuðning. Í þessum hópi séu börn flóttafólks, umsækjenda um alþjóðlega vernd og í einhverjum tilvikum börn innflytjenda. Börnin verði að hámarki níu mánuði í stoðdeildinni áður en þau hefja nám í heimaskóla, að því gefnu að þau fái stöðu flóttamanns. Nú er stefnt að því að opna þessa deild í Vogaskóla.
„Aðalatriðið er að við getum veitt þeim þessa næringu og skjól sem þessi hópur þarf á að halda. Og ef þeim er dreift í marga skóla, þá getur verið að við höfum ekki það fagfólk og umgjörð sem þau þurfa á að halda. Og ég tel að þeim sé enginn sérstakur greiði gerður með því að hafa þau í almennum bekk, með þennan veika og brotna bakgrunn,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
„Hreinlega lögbrot“
Frá 2016 til 2018 hófu 116 börn fólks í leit að alþjóðlegri vernd skólagöngu í 12 grunnskólum í Reykjavík. Í dag er 21 slíkt barn í skólunum.
Helgi segir að Vogaskóli þyki heppilegur fyrir deildina því þar sé reynsla fyrir hendi, og bæði fagfólk og húsnæði til staðar. Hugmyndin er að koma börnunum fyrir í Vogaseli, sem er frístundaheimili við Vogaskóla, fyrir hádegi á meðan byggingin er ekki í notkun.
„Ef ég tala bara út frá mér, þá finnst mér þetta vera í algjörri mótsögn og í algjörri andstöðu við allt það sem við gerum hér,“ segir Helga Helgadóttir, deildarstjóri sérkennslu í Vogaskóla. „Og ég get ekki betur séð en að þetta sé hreinlega lögbrot vegna þess að það sem kemur fram í lögum um grunnskóla, í aðalnámskrá og í barnasáttmálanum, sem er lögbundinn og lögfestur síðan 2013, bendir til þess að þetta sé ólöglegt.“
Þar vísar Helga bæði til laga um grunnskóla þar sem kemur fram að koma eigi í veg fyrir mismunun vegna uppruna við nám og kennslu, og í aðalnámskrá þar sem segir: „Á grunnskólastigi eiga allir nemendur rétt á að stunda skyldunám í almennum grunnskólum án aðgreiningar sem öll börn eiga rétt á að sækja.“
„Menntun án aðgreiningar er verkefni sem við tökum mjög alvarlega hjá Reykjavíkurborg,“ segir Helgi. „Og róum að því öllum árum. En það er engu að síður þannig að það eru mjög oft börn sem þurfa á mjög sérstökum aðstæðum að halda til þess að geta vaxið og blómstrað. Við erum með sérskóla, við erum með ýmsar sérdeildir og við erum að reyna að koma til móts við þarfir allra barna. Og það teljum við best gert með þessum hætti.“